15. ágúst 2017 Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík. Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári. Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg. Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna. Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.