7. nóvember 2025 SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær. Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu. Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂. Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.