Ísland sett í alþjóðlegt samhengi orkumála á uppfærðum vef
Fjölmennt var á fundi sem Samtök iðnaðarins, Samorka, Landsvirkjun, EFLA og Grænvangur stóðu fyrir í morgun í Kaldalóni í Hörpu þar sem kynntar voru nýjar upplýsingar á vefnum Orkuskipti.is.
Á fundinum kom meðal annars fram eftirfarandi:
- Ísland flytur inn olíu fyrir um 160 milljarða króna á ári og því til mikils að vinna að ná fram þriðju orkuskiptunum.
- Ísland er í 22. sæti yfir orkuframleiðslu á mann af þeim 157 ríkjum heims sem eru með yfir 100.000 íbúa. Við stöndum þó fremst þegar kemur að framleiðslu á endurnýjanlegri orku á mann.
- Orkunotkun á mann á Íslandi er sú 10. mesta í heiminum, við sitjum þar á milli Kanada og Bandaríkjanna en notum ekki mikið meiri orku á höfðatölu en til dæmis Noregur og Svíþjóð. Orkunotkun heimilanna er þó meiri en á hinum Norðurlöndunum.
- Vegna landslags og legu Íslands eru vatnsafl, jarðvarmi og vindorka á landi hagkvæmir kostir hérlendis.
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, var fundarstjóri. Fundurinn hófst á samtali Þóru við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem fór yfir hvers vegna væri verið að setja Ísland í alþjóðlegt samhengi og hvað hefði breyst frá því vefurinn var opnaður árið 2022 sem kalli á uppfærðar upplýsingar.
Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaða hjá Landsvirkjun og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, fóru yfir vefinn og greindu frá því hvaða nýju upplýsingar væru þar að finna og á hverju þær byggi.
Þá var efnt til umræðu með eftirtöldum þátttakendum: Guðmundur Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.
Hér má sjá upptöku af fundinum.







Fleiri myndir eru á Facebook síðu Samorku.