4.000 tonnum af CO2 verður fargað árlega

Svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti, hefur skrifað undir tímamótasamninga við Carbfix og Orku náttúrunnar (ON).

Samningarnir leggja grunn að nýrri verksmiðju við Jarðhitagarð ON sem mun fanga 4.000 tonn af koldíoxíði úr lofti árlega og farga með því að breyta því í stein. Þetta eru mikilvægt skref í baráttunni gegn hlýnun jarðar en í fyrsta sinn verða þessar brautryðjandi tækninýjungar sameinaðar í verkefni af þessari stærðargráðu.

  • Samningurinn við ON felur í sér að Climeworks muni byggja aðstöðu innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar til að fanga CO2 úr andrúmslofti. Þetta verður gert með sérþróaðri tækni Climeworks, Direct Air Capture (DAC), en ON mun tryggja stöðugt framboð af hita og endurnýjanlegri orku til að knýja tæknibúnaðinn áfram.
  • Samningurinn við Carbfix tryggir örugga förgun á koldíoxíði með því að binda hann varanlega sem stein í iðrum jarðar. Basalthraunið á Íslandi hentar sérlega vel í slíku ferli og veitir varanlega og náttúrulega lausn þegar kemur að geymslu koltvísýrings.

Verkefnið gæti haft úrslitaáhrif þegar kemur að því að ná markmiðum Parísaramkomulagsins og áframhaldandi þróun á þessum tæknilausnum gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við þetta tilefni segir Jan Wurzbacher, einn stofnenda og framkvæmdastjóra Climeworks: „Samstarfið við ON og Carbfix er stórt skref fram á við til að draga úr magni CO2 í andrúmsloftinu. Aðstæður á Íslandi fyrir slík verkefni eru til fyrirmyndar, með stöðugu framlagi af endurnýjanlegri orku og öruggi og náttúrulegu geymslu fyrir koltvísýringinn. Allir samningsaðilar eru brautryðjendur og sérfræðingar á sínu sviði. Við erum stolt af þessu samstarfi sem mun færa varanlega og örugga föngun og förgun koltvísýrings úr andrúmslofti á næsta stig.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, og Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra CarbFix

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix: „Tækninýjungar Carbfix og Climeworks munu í sameiningu marka tímamót í loftslagsbaráttunni. Í fyrsta sinn getum við fangað koldíoxíð sem þegar er kominn í andrúmsloftið og breytt honum í stein á innan við tveimur árum. Með áframhaldandi aukningu á umfangi þessari tækni væri mögulegt að koma í veg fyrir hamfarahlýnun og á sama tíma skapa nýja undirstöðu iðnaðar í hinu alþjóðlega hagkerfi.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON: „Í Jarðhitagarði ON höfum við komið upp aðstöðu fyrir vísindafólk, frumkvöðla og fyrirtæki til að fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt ásamt því að hvetja til nýsköpunar á sviði jarðvarma. Þessi samningur er stórt skref í átt að þeirri sýn. Samstarfið milli ON, Carbfix og Climeworks sýnir hvernig samstarf og nýsköpun getur skapað lausnir sem skipta máli við að leysa eina stærstu áskorun okkar tíma. Við hjá ON erum yfirmáta stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að styðja við starfsemi Climeworks í framtíðinni.“

Carbfix og Climeworks hafa hlotið styrk úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, verkefni nr. 764760.