108 milljarðar til fjárfestinga og viðhalds næstu 6 árin

Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 108 milljörðum króna varið í viðhald og nýjar fjárfestingar á vegum samstæðunnar. Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2021-2026 var samþykkt af stjórn OR í dag. Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.

Mannaflafrekar viðspyrnufjárfestingar

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna er traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Nú í vor var frá því greint að Veitur hygðust ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna Covid-19 faraldursins. Áformin koma nú inn í opinbera fjárhagsspá OR-samstæðunnar og nema um fjórum milljörðum króna á árinu 2021. Talið er að 200 störf á sunnan- og vestanverðu landinu skapist hjá verktökum við þetta átak, án þess að starfsfólki Veitna fjölgi. Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu. Undirbúningur þess hefur staðið um hríð en skiptin yfir í snjallmæla munu taka tvö til þrjú ár. Um 25 iðnaðarmenn munu að jafnaði starfa við útskiptin sjálf auk fleira fólks í ýmsum stuðningi við verkefnið.

Nánari upplýsingar um fjárhagsspá OR má sjá á heimasíðu þeirra.