Virkjanir og ferðaþjónusta

Hátt í eitt hundrað þúsund manns heimsækja íslensk orku- og veitufyrirtæki á ári hverju, einkum virkjanir. Aðdráttaraflið er nýting endurnýjanlegra orkugjafa og þær tæknilegu lausnir sem þróaðar hafa verið í því sambandi. Mörg orku- og veitufyrirtæki hafa enda lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum og víðar. Nýlega greindi Samorka frá því að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals rúman milljarð króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna.

Hellisheiðavirkjun mun hafa mikla fjölgun í för með sér
Nesjavallavirkjun heimsækja nú um 25 þúsund manns á ári hverju og Orkuveita Reykjavíkur gerir ráð fyrir að margfalt fleiri muni á næstu árum heimsækja Hellisheiðavirkjun, þar sem tekið verður á móti ferðamönnum allt árið um kring, frá og með miðju þessu sumri. Þá tekur Landsvirkjun samtals á móti um 30 þúsund gestum á ári hverju í nokkrum virkjunum á landinu og í Végarði, upplýsingamiðstöð fyrirtækisins í Fljótsdal. Samtals heimsækja hátt í tíu þúsund manns Svartsengi og Reykjanesvirkjun á ári hverju og þá heimsækja þúsundir ferðamanna ýmsar aðrar virkjanir um land allt, til dæmis Fjarðaselsvirkjun á Seyðisfirði, Mjólkárvirkjun í botni Borgarfjarðar og Tungudalsvirkjun á Ísafirði, auk fjölda annarra. 

Gestir úr heimi vísinda, viðskipta og stjórnmála
Ennfremur taka íslensk orku- og veitufyrirtæki árlega á móti miklum fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Stór hluti þessara gesta eru raunar ekki ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlendir gestir úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála, sem í fjölmörgum tilfellum hafa komið hingað til lands gagngert til að kynna sér nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi.

Samandregið er því ekki óvarlegt að ætla að hátt í eitt hundrað þúsund manns, innlendir sem erlendir ferðamenn úr ýmsum ólíkum áttum, heimsæki virkjanir og önnur mannvirki íslenskra orku- og veitufyrirtæja ár hvert. Þá bendir allt til að mikil fjölgun sé framundan í þessu samhengi, ekki síst í tengslum við væntanlega opnun Heillisheiðavirkjunar í nágrenni Reykjavíkur og jafnframt í ljósi síaukinnar áherslu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi nýtingar endurnýjanlegra orkulinda. Þess skal getið að hér eru ekki taldir með gestir vinsælla ferðamannastaða sem tengjast orku- og veitufyrirtækjum, svo sem þau hundruð þúsunda sem heimsækja Perluna og Bláa lónið á ári hverju.