24. október 2025 Virðið í vatninu Vatn er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir allt líf, heldur er það undirstaða samfélags og alls atvinnulífs. Samkvæmt alþjóðlegum gögnum er aðeins um 2,5% af vatni jarðar ferskvatn og þar af er aðeins 0,3% aðgengilegt til neyslu. Þetta þýðir að aðeins örlítið brot af vatni heimsins er raunverulega nýtt í þágu samfélags og atvinnulífs. Ríkulegar vatnsauðlindir Íslands og tryggt aðgengi að heilnæmu hagkvæmu vatni er lykilþáttur í samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Íslensku tækifærin Talið er að það séu um 86 milljónir rúmkílómetra af vatni á jörðinni, en aðeins um 35 milljónir rúmkílómetra eru ferskvatn. Af þessu eru um 70% bundin í jöklum og snjó, 29% í grunnvatni og aðeins tæpt 1% í vötnum og ám. Ísland er gæfuríkt að búa vel af þessari lífsnauðsynlegu auðlind. Endurnýjanlegar ferskvatnsauðlindir á íbúa hér á landi eru tæpir 450 þúsund rúmmetrar, langmest allra landa í heiminum. Álag á vatnsbúskap er aðeins 0,39% af tiltækum ferskvatnsauðlindum, lægst allra landa í Evrópu. Til samanburðar er álagið í Danmörku 25,27% og í Þýskalandi 35,35%. Þetta sýnir að Ísland býr yfir einstökum vatnsauðlindum og hefur tækifæri til að nýta þær með sjálfbærum hætti. Hreint vatn er ekki heppni Mörg taka vatni og vatnsveitum sem sjálfsögðum hlut. Fólk opnar fyrir kranann og býst við að fá hreint vatn en að baki krananum og um alla byggð liggja flóknir innviðir og tugmilljarða fjárfestingar til að færa fólki og fyrirtækjum þau lífsgæði sem felast í vatninu. Þegar óvænt mengun eða röskun á starfsemi vatnsveitu á sér stað verður fólk fljótt meðvitað um hversu viðkvæm vatnsveitan getur verið. Starfsmenn vatnsveitna vinna oft við krefjandi aðstæður til að tryggja rekstraröryggi og gæði vatns. Til grundvallar hvers konar vatnsnýtingu þurfa að liggja rannsóknir og greiningar sem tryggja að vatnsnýting sé sjálfbær og falli vel að fyrirliggjandi nýtingu. Rétt eins og með aðra auðlindanýtingu er það forsenda að nýtingin sé sjálfbær. Með lögum um stjórn vatnamála hefur verið komið á fót kerfi sem tryggir rannsóknir og vöktun vatnsauðlindarinnar í samvinnu stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings Stórar og mikilvægar fjárfestingar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 6 kveður á um að tryggja skuli aðgengi fyrir öll að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir árið 2030. Fyrirtæki og sveitarfélög bera ábyrgð á að nýta vatnsauðlindir á sjálfbæran hátt og fjárfesta í innviðum sem tryggja öryggi, gæði vatnsins og samfellda þjónustu. Íslendingar búa við öflugar vatnsveitur sem reknar eru af sveitarfélögum og veitufyrirtækjum en það er ekki sjálfgefið að svo verði um alla tíð. Áskoranir á borð við loftslagsbreytingar, aukna mengun og vaxandi eftirspurn krefjast þess að fyrirtæki og stjórnvöld taki virkan þátt í verndun vatnsins. Það er mikilvægt að hafa í huga að á bak við vatnsveiturnar liggja verðmætir innviðir sem þurfa reglulegt viðhald og nýfjárfestingar til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar. Áætlað endurstofnvirði vatnsveitna á Íslandi er 230 milljarðar króna samkvæmt innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins sem kom út fyrr á árinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að framtíðarhorfur vatnsveitna séu neikvæðar og að uppsöfnuð innviðaskuld sé nú 19 milljarðar króna. Þessar tölur minna á mikilvægi þess að stjórnvöld búi vatnsveitum umgjörð sem hvetur til reglulegrar endurnýjunar, nýfjárfestinga, nýsköpunar og framsýni í rekstri – skort hefur á endurnýjun á þessari umgjörð. Opinberar reglur tryggi virka vernd vatnsins Vatnsveitur þurfa að hafa skýrar heimildir til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vatnsból og vatnsveitur frá hvers konar ytri ógnum. Það er óforsvaranlegt að óhöpp sem á flesta mælikvarða myndu teljast lítil geti ógnað vatnbólum og valdið verulegri röskun í veitingu vatns til fólks og fyrirtækja. Af öðrum ógnum má telja loftslagsbreytingar og stærri mengunarslys. Opinberar reglur leggja mikla ábyrgð á vatnsveitur en tryggja ekki í öllum tilfellum getu þeirra til að meta og ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til vatnsverndar. Þá er nauðsynlegt að fjárhagslegt rekstrarumhverfi vatnsveitna tryggi getu þeirra til að vinna markvisst í viðhaldi og nýfjárfestingum. Þessu verður að breyta. Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Hún birtist fyrst í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 22. október 2025.