9. desember 2025 Vatn og viðnámsþróttur þess í forgangi hjá ESB Mikil þátttaka var í „Water Resilience Forum,“ ráðstefnu á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel þann 8. desember, þar sem rætt var um hvernig tryggja megi íbúum Evrópu aðgang að nægu og góðu vatni. Umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, Jessika Roswall, lagði áherslu á að vatnið væri eitt af helstu forgangsmálum framkvæmdastjórnarinnar, Í sama streng tók Teresa Ribera, varaforseti og benti á hvernig vatn væri einn af hornsteinum í hreinni iðnaðaruppbyggingu í álfunni. Aðrir frummælendur töluðu um hvernig flóð en einnig þurrkar og vatnsskortur væru meðal áskorana í Evrópu, nokkuð sem yrði að skoða í ljósi loftslagsbreytinga. Hinsvegar þyrftum við líka að nýta vatnsauðlindir okkar með skilvirkari hætti. Gestir á ráðstefnunni heyrðu líka reynslusögu frá Svíþjóð þar sem vatnsból mengaðist með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa. Veitufyrirtæki innan vébanda Samorku leggja áherslu á örygga og góða þjónustu, verndun vatnsbóla og nýsköpun. Samorka tekur líka virkan þátt í starfi EurEau, samtaka fyrirtæki á þessu sviði í Evrópu, sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Ráðstefnan „Water Resilence Forum“ er haldin í framhaldi af stefnumótun Evrópusambandsins um viðnámsþrótt vatns „Water Resilence Strategy.“ Ljóst er að mörg krefjandi verkefni eru framundan á þessu sviði enda er vatnið lífæð okkar allra. Lög og reglur sem verða til á vettvangi Evrópusambandsins hafa áhrif á starfsumhverfi íslenskra veitufyrirtækja sem sjá almenningi og fyrirtækjum fyrir drykkjarvatni en sinna líka fráveitu. Samorka fylgist því grannt með þessum viðfangsefnum og liður í þeirri vinnu var að sækja þessa ráðstefnu í Brussel.