Vandséð annað en Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt

Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lögunum var breytt árið 2005 og í frumvarpinu segir meðal annars, um helstu breytingar á lögunum, að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hlutverk Skipulagsstofnunar er fyrst og fremst það, í þessu tilfelli, að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, sem hún og gerði sem fyrr segir.

Hlutverk Skipulagsstofnunar, gagnvart matsskýrslu um umhverfisáhrif, er fyrst og fremst það að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber stofnuninni að kynna álit sitt fyrir umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma.

Ekki ætlað að taka afstöðu, heldur staðfesta lýsingu
Lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005 og í athugasemdum við frumvarpið árið 2005 segir m.a.:
    „Helstu breytingar sem frumvarp þetta mælir fyrir um eru eftirfarandi:
    1.      Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“

Í 11. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum. Í greininni segir m.a.: „Innan fjögurra vikna frá því að Skipulagsstofnun tekur á móti matsskýrslu skal stofnunin gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.
Telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.“ Ákvæði reglugerðar á grundvelli laganna eru nánast alveg samhljóða (sjá 24. grein).

Segi ekki til um hvort framkvæmd sé i lagi eða ekki
Lögunum var sem fyrr segir breytt árið 2005 og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar segir m.a.: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að undirstrika tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum en hann er að setja reglur um það hvernig framkvæma eigi mat á umhverfisáhrifum þannig að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. Telur meiri hlutinn rétt að undirstrika það vegna þeirra vangaveltna sem fram komu við umfjöllun málsins um að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum væri að finna ákvæði sem hindrað gætu framkvæmd. Bendir meiri hlutinn á að þær tilskipanir sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á fela ekki í sér að þessar reglur eigi að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda [skál. Samorka].

Komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt
Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Álitið ekki bindandi
Ljóst er að álit Skipulagsstofnunar, þess efnis að virkunin sé óásættanleg, er á engan hátt bindandi, hvorki fyrir sveitarfélagið sem fer með skipulagsvaldið, né fyrir iðnaðarráðherra sem veitir nýtingarleyfi.