Um raforkuverð til stóriðju

Grein Gústafs Adolf Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Varla líður sá dagur að ekki sé fullyrt í viðtölum og blaðagreinum að íslensk orkufyrirtæki sjái stóriðjufyrirtækjum fyrir raforku á útsöluverði, gjafverði eða einhverju álíka. Iðulega er fullyrt að verðið hér sé með allra lægsta móti í alþjóðlegum samanburði og loks er því gjarnan haldið fram að íslenskur almenningur, fyrirtæki og stofnanir niðurgreiði þetta meinta ódýra rafmagn til stóriðju með hærra raforkuverði en ella.

Áhugi á taprekstri trúlegur?
Miðað við þann fjölda fólks sem þátt tekur í þessum málflutningi mætti kannski draga þá ályktun að fólk trúi því í alvöru að íslensk orkufyrirtæki hafi áhuga á að leggja út í miklar fjárfestingar og stofna til umfangsmikils rekstrar til þess að selja raforku með tapi. En auðvitað stenst slík ályktun ekki skoðun. Eða hvers vegna ættu íslensk orkufyrirtæki að hafa áhuga á því? Hver ætti ávinningurinn að vera og fyrir hvern?

Hver sem ástæðan er fyrir slíkum málflutningi er ljóst að honum er haldið uppi með vísan til þess trúnaðar sem ríkir í samningum um raforkuverð til stóriðju. Um þá stöðu er margt að segja og vissulega kemur þar við sögu að orkufyrirtækin eru í eigu opinberra aðila og því af margra hálfu ríkari áhersla á gegnsæi í öllum rekstri en ella. Engu að síður eru þessi fyrirtæki rekin í samkeppni, innbyrðis jafnt sem við erlenda aðila í tilfelli raforkusölu til stóriðju. Í kjölfar nýlegra breytinga á raforkulögum er staðan jafnframt þannig að mörg íslensk fyrirtæki hafa gert samninga um raforkuverð og um þá ríkir trúnaður, líkt og gildir auðvitað um fjöldann allan af samningum fyrirtækja í milli. Varðandi stóriðjuna þá hefur komið fram að hinir erlendu raforkukaupendur leggja áherslu á trúnað um umsamið raforkuverð. Einnig hefur komið fram að af hálfu til dæmis Landsvirkjunar var þessi stefna um trúnað mótuð með einróma samþykki á vettvangi stjórnar fyrirtækisins um miðjan síðasta áratug, þar sem slík stefna var best talin þjóna hagsmunum fyrirtækisins í samningaviðræðum við erlenda raforkukaupendur. Sama fyrirtæki hefur hins vegar birt niðurstöður arðsemisútreikninga vegna Kárahnjúkavirkjunar sem sameiginleg nefnd eigenda vann með sjálfstæðum hætti, en arðsemin er auðvitað það sem mestu máli skiptir. Varla þarf þó að taka fram að trúnaðurinn nær ekki til fulltrúa eigenda orkufyrirtækjanna.

Orkuverð til stóriðju í meðallagi hérlendis
Þrátt fyrir trúnaðinn hafa þó ýmsar upplýsingar komið fram um þá samninga sem gerðir hafa verið milli íslenskra orkufyrirtækja og erlendra stóriðjufyrirtækja. Meðal annars hefur komið fram að verðið á raforku til stóriðju er í meðallagi hátt hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Er þá byggt á niðurstöðum óháðra alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Ennfremur hefur komið fram að samningar við álfyrirtæki eru með ýmsum hætti tengdir þróun heimsmarkaðsverðs á áli og raforku.

Einhverjir kunna að gagnrýna þessa niðurstöðu um raforkuverð sem er í meðallagi hátt á heimsvísu. Þarna er hins vegar einfaldlega um að ræða samninga í viðskiptum. Hér á landi er launakostnaður til dæmis hár og flutningsleiðir langar með hvoru tveggja hráefni og afurðir. Aðalatriðið er að samningarnir sem um ræðir eru eðli málsins samkvæmt sameiginleg niðurstaða raforkusala og raforkukaupenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Lægra almennt raforkuverð vegna stóriðju
Loks ber að geta þess að þótt raforkuverð til almennra notenda sé ekki hátt hér á landi, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að lang stærstu viðskiptavinir orkufyrirtækjanna, sem gert hafa langtímasamninga um föst kaup á tilteknu magni raforku, greiði lægra verð en langtum smærri og breytilegri viðskiptavinir. Ef ég opna litla matvöruverslun þá geng ég varla inn í sömu verð hjá birgjum og stærstu verslanakeðjurnar njóta. Þetta á þó ennþá frekar við um raforku en flesta aðra vöru, þar sem raforka hefur þá sérstöðu að hún er ekki geymd á lager. Framleiða þarf raforkuna samtímis nýtingu hennar, umframframleiðsla fer einfaldlega til spillis og jaðarkostnaður við mögulega viðbótareftirspurn á álagstímum er þess vegna hlutfallslega mjög hár. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa hins vegar í gegnum tíðina meðal annars gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að reisa virkjanir og flutningsvirki með hagkvæmari hætti en ella og þannig má færa rök fyrir því að raforkusala til stóriðju hafi beinlínis haft áhrif til lækkunar á raforkuverði til almennra notenda.

Arðbær viðskipti og verðmætasköpun
Fyrir sumt fólk er eflaust mikil stemning fólgin í því að fjalla um meint útsölurafmagn til „erlendra auðhringa“, um meintar niðurgreiðslur almennings á öllu saman, um „virkjanafíkn“ og um „álbrjálæði“. En slíkur málflutningur stenst auðvitað enga skoðun. Þegar samningar nást um sölu á raforku til stóriðju, þá gerist það á grundvelli þess að um sé að ræða arðbær viðskipti fyrir báða aðila (og raunar í leiðinni verðmætasköpun til hagsbóta fyrir landsmenn alla) en jafnframt í trausti þess að áhrif á náttúrufar viðkomandi virkjanasvæða verði metin ásættanleg af þar til bærum aðilum.