23. október 2025 Það þarf að tryggja öryggi vatnsbóla Vatnsvernd og áskoranir við vatnsöflun, öryggi og áfallaþol vatnsveituinnviða var til umfjöllunar á opnum fundi Samorku, Verndum vatnið, á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. október. Vatnsveitur eru dæmi um grunnþjónustu í samfélaginu sem við getum einfaldlega ekki verið án. Á fundinum var veitt góð innsýn inn í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði og hvernig hægt er að takast á við þær. Jón Gunnarsson, verkefnastjóri greininga hjá Samorku sýndi fram á vatnsríkidæmi okkar Íslendinga en líka hvað við notum vatn ótæpilega miðað við nágrannaþjóðir á hinum Norðurlöndunum. Jón Gunnarsson var með skemmtilegar staðreyndir um vatnsnotkun á Íslandi Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna og formaður stjórnar Samorku lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um vatnsbólin og útivistarmöguleika í Heiðmörk með deiluskipulagi og áhættumati. Sólrún Kristjánsdóttir kynnti áherslur Veitna hvað varðar vatnsvernd í Heiðmörk Glúmur Björnsson jarðfræðingur sagði síðan frá áskorunum sem HEF veitur standa frammi fyrir við vatnsöflun á Austurlandi. Glúmur sagði frá ólíkum áskorunum minni veitna og stærri Tor Gunnar Jantsch, sviðsstjóri hjá Oslo Vann – vatnsveitu Osló-borgar – flutti loks mjög athyglisvert erindi um mikilvægi þess að tryggja vatnsöflun fyrir borgarbúa og hvernig nýjar ógnir kalla á auknar öryggisráðstafanir til að vernda þessa innviði. Tor Gunnar vakti fundargesti til umhugsunar um öryggi mikilvægra innviða. Í pallborði sagði Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, mikilvægt að skilgreina vel þessa ómissandi innviði, þá sem við getum ekki verið án í 24 tíma, og setja stíft regluverk um þá. Það blasi við að það þurfi að tryggja að vatnsból séu örugg og tók heilshugar undir viðmið Veitna í Heiðmörk. Runólfur í pallborðsumræðum Kristinn Harðarson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku ræddi meðal annars vatnsból fyrirtækisins á miðju jarðhræringasvæði og hvernig baráttan við eldgos hefur hjálpað til við að vera undirbúinn fyrir áföll. Marianne og Kristinn í pallborðsumræðum Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri stjórnar vatnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun ræddi meðal annars um hvernig grunnvatn er á höndum og ábyrgð margra aðila í stjórnsýslunni; Umhverfis- og orkustofnun, Heilbrigðiseftirlit, sveitarfélögin, MAST, Veðurstofa Íslands og þess vegna mjög mikilvægt að styrkja samtal og samvinnu þessara aðila. Upptaka af fundinum í heild sinni: