Taka þarf grundvallarákvarðanir fyrr í þessu langa og flókna ferli

Á aðalfundi Samorku flutti Árni Bragason, ráðgjafi hjá Línuhönnun verkfræðistofu, erindi undir heitinu Flókin reglubyrði framkvæmda? – Samantekt og ábendingar um mögulegar úrbætur. Árni er m.a. fyrrum forstjóri Náttúruverndar ríkisins og þekkir þennan málaflokk því úr ólíkum áttum.

Árni fjallaði í erindi sínu um lög og stefnumörkun stjórnvalda, regluverkið og leyfin sem afla þarf við undirbúning og virkjun jarðvarma og flutning raforkunnar. Velti hann upp þeirri spurningu hvort mögulegt og/eða skynsamlegt sé að einfalda regluverkið. Löggjöfin er varðar nýtingu og vernd hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum og ýmsir verkferlar eru enn að mótast. Árni fjallaði um þá fjölmörgu leyfisferla sem fara þarf í gegnum í stórum framkvæmdum og velti upp spurningum um kynningar á framkvæmdunum og aðkomu almennings. Þá fjallaði hann um frumvarp til breytinga á skipulagslögum sem lagt var fram á Alþingi 12. febrúar síðastliðinn þar sem landsskipulag verður tekið upp sem æðsta skipulagsstig. Árni ræddi um hvaða áhrif landsskipulagið mun hafa á framtíðarþróun mála. Ýmsar aðrar breytingar eru í frumvarpinu sem hafa munu áhrif á orkugeirann og stuðla að meiri upplýsingagjöf á undirbúningsstigi framkvæmda.

Rammaskipulag og landsskipulag
Varðandi frumvarpið til skipulagslaga benti Árni sérstaklega á ákvæði um rammaskipulag, sem hann taldi hugsanlega hægt að útfæra þannig að nýta mætti það fyrir einstök virkjunarsvæði og þannig spara síendurtekna leyfisveitingarferla. Hann velti því jafnframt upp nýtt landsskipulag myndi leysa úr málum þar sem mismunandi skipulagsaðilar komast í dag að gagnstæðri niðurstöðu. Nefndi hann Norðlingaölduveitu og Langasjó sem dæmi um slíka stöðu.

„Einfölduð mynd“ býsna flókin
Árni sýndi „einfaldaða mynd“ af því ferli sem fara þarf í gegnum við nýja orkuöflun (sjá glæru 22) og er óhætt að segja að sú mynd sé engu að síður æði flókin. Enda hefur komið fram að þess eru dæmi að ein og sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umsagnar hjá sama umsagnaraðila í svona ferli. Hann lagði áherslu á að taka þyrfti grundvallarákvarðanir sem fremst í þessu langa og flókna ferli. Í dag væri athyglin öll á málinu þegar unnið væri mat á umhverfisáhrifum virkjunar, en það gæti verið mjög seint í ferlinu. Árni tók Bitruvirkjun sem dæmi en það mál var opnað með matsferli á rannsóknaborun árið 1994. Árið 2002 var aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps auglýst án þess að athugasemdir bærust og var það staðfest árið 2003, en í skipulaginu er gert ráð fyrir virkjun á Ölkelduhálsi. Svo væri það ekki fyrr en með mati á umhverfisáhrifum virkjunar árið 2007 sem athugasemdir almennings færu að berast og ágreiningur að kvikna meðal stjórnmálamanna. Þetta sagði Árni dæmi um að taka þyrfti grundvallarákvarðanirnar og tryggja aðkomu almennings og stjórnmálamanna framar í þessu langa og flókna ferli, í stað þess að umræðan færi öll í gang þegar búið væri að vinna alla grunnvinnuna. Ákveða þyrft miklu fyrr hvort vilji væri til framkvæmda á viðkomandi svæði.

Leiðir til einföldunar
Sem leið til einföldunar benti Árni m.a. á að leggja mætti meiri vigt í samráðsferlið í tengslum við umhverfismat áætlana, sem byggir að miklu leyti til á sömu upplýsingum og þegar sótt er um rannsóknarleyfi. Taka mætti meiri upplýsingar inn á þessu stigi en draga á móti úr áherslu á mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem unnið er mun seinna í ferlinu.

Þá fjallaði Árni sem fyrr segir um möguleg áhrif nýs frumvarps um skipulagslög, einkum áhrif ramma- og landsskipulags og sagðist Árni telja að hugsanlega væru þarna breytingar framundan sem „auðvelda myndu okkur lífið“ á næstunni.

Sjá erindi Árna Bragasonar.