21. nóvember 2017 Stórt stökk framundan í fráveitumálum Fundurinn var vel sóttur Skólp verður hreinsað hjá 90% landsmanna eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Í dag er hlutfallið 77%. Á þessu ári bætast hátt í 10.000 landsmenn í þann hóp að búa við skólphreinsun þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins. Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, kynnir greiningu sína á fundinum Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU rýndi í nýlega skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu þar sem kom fram að fjárfestinga væri sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir segir þurfa að bæta ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af kosti skólphreinsunin um 20 milljarða. Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% séu alltaf erfiðust að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús. Helgi Jóhannesson ásamt Jóhönnu B. Hansen fundarstjóra Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, kallaði eftir því að staða og sjálfstæði fráveitna yrði tryggð, þannig að fjármunir sem ætlaðir væru fráveitumálum færu raunverulega í uppbyggingu og rekstur fráveitna hjá sveitarfélögum. Helgi sagði kostnað við framkvæmdir mikinn og fráveitugjöld nái oft á tíðum ekki upp í þann kostnað nema að litlum hluta, þar sem þau miðast við fasteignamat sem oft á tíðum er lágt í litlum bæjarfélögum. Það ætti einnig að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þá fjallaði Íris Þórarinsdóttir um fjölbreytt viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi og martröðina í pípunum; blautþurrkur og önnur efni eða hluti sem fólk setur í klósettið í stað ruslatunnunnar. Nefndi hún til dæmis efni, sem hafa endilega áhrif á kerfin hjá fráveitunum heldur á viðtakann svo sem lyf og fíkniefni. Einnig fjallaði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, um það grettistak sem lyft hefur verið í fráveitumálum hér á landi undanfarna áratugi. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem tengdir eru skólphreinistöð úr 6% í 68% og nú árið 2017 er hlutfallið orðið 77%. Gríðarlegt rask fylgi slíkum framkvæmdum sem standi yfir mánuðum saman þannig að ekki mætti gleyma þessu mikla átaki sem ráðist var í þrátt fyrir að gera mætti enn betur eins og staðan er í dag. Hér má sjá fyrirlestrana í heild sinni: