Standast forsendur í sáttmála Framtíðarlandsins?

Framtíðarlandið hefur sett fram það sem samtökin kalla sáttmála um framtíð Íslands. Þar er boðuð stöðvun allra mögulegra framkvæmda við virkjanir og stóriðju þar til samþykktur hafi verið annar áfangi rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og áætluninni gefið lögformlegt vægi. Samkvæmt þessu er væntanlega farið fram á að stöðvaðar verði framkvæmdir sem nú þegar hafa farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og hlotið ýmis tilskilin leyfi, með miklum kostnaði við rannsóknir, hönnun og svo framvegis.

Samorka gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að hópur fólks vilji aukna áherslu á náttúruvernd og setji fram þau sjónarmið. Ljóst er að Framtíðarlandið vill að náttúran njóti ávallt alls vafa og um þá afstöðu verður ekkert deilt, þótt aðrir geti verið þessari afstöðu ósammála. Margt af meintum röksemdafærslum Framtíðarlandsins er á hinn bóginn fjarri því hafið yfir gagnrýni og skal hér tæpt á nokkrum atriðum í því sambandi, en af nógu er að taka.

Rétt að fækka ferðamönnum?
Í sáttmálanum er talað um þensluáhrif af stóriðjuframkvæmdum (virkjanaframkvæmdir væntanlega með taldar) og þær sagðar draga úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins. Nú hefur margoft komið fram að þenslu undanfarinna ára megi rekja til ýmissa þátta, svo sem breytinga á íbúðalánamarkaði og mikillar útlánaaukningar í bankakerfinu. Framkvæmdir vegna stóriðju og vegna nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum koma þar einnig við sögu. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur raunar bent á þá sérstöðu að hagstjórnaráhrif slíkra framkvæmda eru að mestu fyrirséð og því hægt að bregðast við þeim í tíma. Þarna er hins vegar á ferðinni sú kenning að einhver ein eða tvær atvinnugreinar eigi að bera ábyrgð á stöðugleika í efnahagsmálum. Hagfræðingur Samtaka iðnaðarins benti nýlega á að þannig mætti eins leggja til að dregið yrði úr þorskveiðum eða reynt að fækka ferðamönnum, en að enn betra væri þó hemja bankana enda eru þeir miklu fyrirferðarmeiri í hagkerfinu en áliðnaður. Einstakar atvinnugreinar geta ekki borið ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Íslensk orkuþekking í útrás
Um þá fullyrðingu að framkvæmdir við virkjanir og stóriðju dragi úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins er margt að segja. Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Svipaða sögu má segja um álfyrirtækin. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar.

Það geta væntanlega allir tekið undir með Framtíðarlandinu um að hér skuli byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fái að njóta sín. En það stenst enga skoðun að stilla nýtingu endurnýjanlegra orkulinda eða uppbyggingu stóriðju upp sem einhvers konar hindrunum við þessa jákvæðu framtíðarsýn.

Ísland í einstakri stöðu með endurnýjanlega orku
Loks er rétt að nefna hér þann vilja Framtíðarlandsins að Ísland taki Evrópusambandið sér til fyrirmyndar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, en í sáttmálanum er vísað í nýleg markmið ESB í þeim efnum sem miðast við árið 2020. Fyrir þann tíma hyggst ESB hafa náð þeim áfanga að 20% orkunotkunar innan þess verði frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Hlutfallið er í dag 6-7% og lítið hefur komið fram um það hvernig ESB hyggst þrefalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa á þessum tíma. Á Íslandi er þetta hlutfall í dag 72%.

Hlýnun á lofthjúpi jarðar er fyrst og fremst rakin til brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgir. Fyrir vikið er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði, samanber fyrrnefnt markmið ESB. Ísland er í einstakri stöðu í heiminum hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og þarf ekki að taka ESB sér til fyrirmyndar þegar kemur að orku- og loftslagsmálum. Þau tengsl eru á hinn veginn. Ef dæma má af fréttaflutningi frá blaðamannafundi Framtíðarlandsins var hins vegar fjallað þar um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá einhverjum langtum fleiri og stærri álverksmiðjum en hér eru starfandi eða aðilar hafa uppi áform um að reisa hér.