Samkaup og Gentle Giants handhafar menntaverðlauna atvinnulífsins

Samkaup er menntafyrirtæki ársins 2022. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1400. Í rekstri verslana á dagvöru-markaði felast margar áskoranir þar sem grunnurinn að gæðum og góðri þjónustu er fjölbreytni og sveigjanleiki til að uppfylla fjölþættar þarfir viðskiptavinanna í öllum byggðum landsins.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ljóst er að Samkaup leggur mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri þess til að eflast og þroskast bæði persónulega og í starfi. Í þessu skyni er unnið jöfnum höndum með skipulagða fræðslu innan fyrirtækisins en einnig í samstarfi við ytri fræðsluaðila þar sem starfsfólk getur stundað nám með vinnu og um leið skapað sér grunn til áframhaldandi náms síðar meir. Mikilvægt er að Samkaup veita starfsfólki sérstakan stuðning í þessu skyni.

Með því að styrkja einstaklinga til starfsþróunar er einnig lagður grunnur að framtíðar leiðtogum innan fyrirtækisins og menntunarstig innanfyrirtækisins hækkar sem aftur skilar sér í eftirsóknarverðum vinnustað, starfsánægju og jákvæðu viðhorfi starfsfólk til þeirra færni sem mikilvæg er í kaupmennsku, þjónustu og verslunarrekstri almennt. Mjög jákvætt er að sjá þá áherslu sem lögð er á fjölbreyttar menntaleiðir innan fyrirtækisins sem ná til breiðs hóps starfsfólks sem einnig miðlar þekkingunni á milli vinnustöðva innan fyrirtækisins.

Ánægjulegt er að sjá að frá því Samkaup vann menntasprota atvinnulífsins árið 2020 hefur uppbyggingarstarfinu verið haldið áfram með þeirri niðurstöðu að Samkaup eru menntafyrirtæki ársins 2022. Markvissar mælingar fara fram á árangri í þjálfun og þróun starfsmanna sem staðfesta jákvæða og mjög sterka stöðu í fræðslu og þjálfunarmálum innan Samkaupa.

Ljóst er að Samkaup gera sér grein fyrir því að mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækja og blómstri hún blómstrar fyrirtækið.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Jóhanna Sigríður Svavarsdóttir, mannauðsstjóri, Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants.

Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík er menntasproti ársins 2022. Einn lykilþáttur sprotans er samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu innan sem utan fyrirtækja auk nýsköpunar í fræðslu innan fyrirtækis eða í samstarfi aðra aðila.

Gentle Giants býður uppá hvalaskoðunarferðir og aðrar sjótengdar upplifanir á Skjálfandaflóa. Í flotanum eru níu bátar, tveir eikarbátar og fimm hraðbátar og hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á sínu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 starfsmenn (í hefðbundnu árferði). Gegnum árin hefur starfsmannavelta verið lítil hjá Gentle Giants og að því marki sem störf fylgja árstíðarbundnum sveiflum hefur sama starfsfólkið komið til starfa aftur og aftur. Þetta staðfestir að sú áhersla sem félagið hefur lagt á starfsmannamál og þar með fræðslu og þjálfunarmál hefur skipt miklu um vellíðan starfsfólksins.

Í ferðaþjónustu þar sem byggt er á notkun skipa og báta felst mikil áskorun þegar kemur að öryggismálum sem endurspeglast í fjölmörgum opinberum kröfum sem fyrirtækið og starfsfólk þess þarf að mæta. Gentle Giants hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á að þessum kröfum sé mætt til hins ýtrasta og hvergi slakað á í þeim efnum. Unnar hafa verið vandaðar og yfirgripsmiklar handbækur, leiðbeiningar og þjálfunaráætlanir hér að lútandi sem tryggja öryggi jafnt starfsfólks og viðskiptavina.

Mikla athygli vekur sú áhersla sem Gentle Giants hafa lagt á fjölþætt samstarf við nærsamfélag sitt á sviði menntunar, fræðslu og rannsókna. Þannig hefur fyrirtækið verið í samstarfi um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði með Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík og verið með doktorsnema í hlutastarfi því tengdu. Gentle Giants kom að stofnun nýrrar námsbrautar við Framhaldsskólann á Húsavík um leiðsögunám sem fékk góðar viðtökur og viðbrögð í nærsamfélaginu. Þá hefur fyrirtækið tekið þátt í að skapa sumarstörf fyrir grunnskólanemendur á svæðinu og skapa þannig áhuga þeirra á fjölbreyttum störfum í atvinnulífinu.

Ljóst er að Gentle Giants – Hvalaskoðun hafa lagt í mikla og áhugaverða vinnu á sviði mennta-, fræðslu- og þjálfunarmála innan fyrirtækisins en jafnframt tekið þátt í uppbyggingu á þessu sviði í samstarfi við aðila á svæðinu og sýnt mikilvæga samfélagslega ábyrgð sem hefur mikla þýðingu og sýnir hvernig slíkt samstarf felur í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir alla aðila.

Gentle Giants – Hvalaskoðun hefur þannig sýnt að sprotar og þróunar starf er gríðarlega mikilvægt til þess að treysta starfsgrundvöll fyrirtækja og skapa þeim mikilvægt samkeppnisforskot.