Ósanngjarnt ef gerð er krafa um enga arðsemi af þjónustu veitufyrirtækja við önnur sveitarfélög

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og stjórnarformaður HS Veitna, fjallaði um hlutverk veitufyrirtækja – þjónustu, arðsemi og afkomu – í erindi á aðalfundi Samorku. Í erindi sínu rakti Árni m.a. þær miklu breytingar sem orðið hafa á eignarhaldi HS Veitna, áður Hitaveitu Suðurnesja, á undanförnum árum, en nokkur sveitarfélög seldu sinn hlut í fyrirtækinu til Geysis Green Energy á mjög hagstæðu verði. HS Veitur þjónusta hins vegar enn umrædd sveitarfélög, ýmist með heitt vatn, kalt vatn og/eða raforkudreifingu (svo sem Grindavíkurbæ, Árborg, Vestmannaeyjar, Sandgerðisbæ, Garð og Voga) þótt eignarhaldið nú sé nær alfarið bundið við Reykjanesbæ, Hafnarfjörð og Orkuveitu Reykjavíkur. Árni benti á að sum þessara sveitarfélaga stæðu nú mjög vel skv. hefðbundnum mælikvörðum ríkisins á fjárhagsstöðu sveitarfélaga, á meðan Reykjanesbær og Hafnarfjörður stæðu verr á þeim mælikvörðum en hefðu ásamt Orkuveitu Reykjavíkur rúma 16 milljarða króna bundna í rekstri HS Veitna.

Að mati Árna getur „núllrekstur“ á veitufyrirtækjum gagnast eigendum veitna og íbúum veitusvæða, þegar eignarhaldið og dreifiveitusvæðið fara saman. Greiddur arður geri það raunar líka, enda sé honum þá varið til annarra verkefna í viðkomandi sveitarfélögum. Í þeim tilvikum þegar eignarhald og dreifiveitusvæði fara ekki saman sagði Árni hins vegar rökrétt fyrir eigendur að setja veitufyrirtækjunum viðunandi arðsemiskröfu. Greiddur arður nýtist þá eigendum og íbúum viðkomandi sveitarfélaga, sem bundið hafa sína fjármuni í rekstri veitufyrirtækjanna, en ekki íbúum sem veitufyrirtækið þjónar utan eigendasvæðanna. Árni sagði það beinlínis ósanngjarnt ef einhver ætlaðist til þess að þau sveitarfélög sem hefðu sína fjármuni bundna í veiturekstri gerðu ekki kröfu um eðlilega arðsemi af rekstrinum, þótt þau þjónustuðu önnur sveitarfélög sem selt hefðu sína hluti í veitufyrirtækjunum góðu verði og gætu ráðstafað þeim fjármunum í annað eða haft af þeim vaxtatekjur. Hann sagði núverandi arðsemiskröfu HS Veitna vera 14,2% á bókfært eigið fé fyrirtækisins.

Sjá erindi Árna Sigfússonar (glærur).