1. október 2018 Orkuveita Reykjavíkur fær 2 milljarða styrk Hellisheiðarvirkjun Orkuveita Reykjavíkur (OR) ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita. OR leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu. Markmið GECO (Geothermal Emission Control) er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S) byggða á CarbFix verkefninu sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun. Gróðurhúsalofti breytt í grjót CarbFix-aðferðin, stundum nefnd Gas í grjót, felst í að leysa koltvíoxíð og brennisteinsvetni upp í vatni og dæla þeim djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninum til frambúðar. Þessi aðferð er ódýrari en hefðbundnar hreinsunaraðferðir á þessu jarðhitalofti og leiðir til langtímabindingar þess. Með GECO verkefninu verður CarbFix aðferðin þróuð enn frekar og henni beitt víðar. Auk Íslands verður hún prófuð á Ítalíu, í Tyrklandi og í Þýskalandi. Þá verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna.