Orkumannvirki sem fellur vel að umhverfinu

Það er mikilvægt að haft sé í huga við hönnun mannvirkja að þau falli vel að umhverfinu og gleðji augað. Á Orkuþingi 2001 nú nýverið var samkeppni um orkumannvirki sem fellur best að umhverfinu. Sjö aðilar sendu inn ellefu tillögur. Það voru Landsvirkju, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Egilsstaða og Fella, Olíufélagið hf, Olíuverslun Íslands og Skeljungur. Orkumannvirkin voru af mjög mismundandi toga, allt frá litlu sýnidæmi í orkuframleiðslu (vél 4 í Blöndustöð) upp í stórt uppistöðulón (Hágöngulón) auk mannvirkja sem eru hluti af borgarumhverfinu (bensínstöðvar). Dómnefndina skipuðu þrír arkitektar; Hrafn Hallgrímsson, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir og Björn Marteinsson. Dómnefndin valdi að flokka tillögurnar í þrjá hópa. Í einum hópnum voru bensínstöðvar allar í borgarumhverfi. Í öðrum hópi voru lítil, stök orkuveitumannvirki. Í þriðja hópnum voru síðan ýmis mjög mismunandi dæmi um orkumannvirki Landsvirkjunar. Umsögn dómnefndar Bensínstöðvar hafa hlutverk sem kallar á að þær séu áberandi í umhverfinu. Dómnefnd var sammála um að framlag Olíuverslunar Íslands, ÓB Bæjarlind, fengi viðurkenningu í flokki bensínstöðva. Mannvirkið er vel afmarkað og stílhreint. Í flokki smárra orkuveita voru þrjár tillögur sem eiga það sammerkt að standa einar í umhverfinu. Hönnuðir hafa ýmist valið að undirstrika mannvirkið sem hluta af umhverfi sínu eða leggja áherslu á andstæðu manngerðs og náttúrulegs umhverfis. Dómnefndin valdi Orkustöðina á Húsavík í þessum flokki vegna skírskotunar til umhverfisins bæði í formi og litavali. Ýmis orkumannvirki Landsvirkjunar eru í þriðja flokki. Tillögur Landsvirkjunar sýna áhuga fyrirtækisins á að kynna þá fjölbreyttu mannvirkjagerð sem fylgir orkuvinnslu og viljann til að stana vel að verki. Dómnefndin valdi tengivirki við Búrfell sem áhugavert dæmi um tækniumbætur til bóta fyrir umhverfið og veiti því viðurkenningu sína.