Ný tegund gagnrýni: farið að lögum

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi um heim allan. Ísland er þar engin undantekning. Hérlendis er þessi umræða þó með allt öðrum og jafnvel öfugum formerkjum við það sem víða gerist annars staðar. Í nágrannalöndunum snýst umræðan öðru fremur um leiðir til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, enda talið að hlýnun jarðar stafi að stærstum hluta af brennslu jarðefnaeldsneytis. Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa er þannig um 7% innan Evrópusambandsins, en hér á landi er hann 72% og Ísland í einstakri stöðu á þessu sviði. Hér á landi eru það þó óvart framleiðendur og flutningsaðilar endurnýjanlegu orkunnar sem öðrum fremur sitja undir gagnrýni þeirra sem tala í nafni umhverfisverndar.

Nú er það auðvitað svo að málefnalegt aðhald er orku- og veitufyrirtækjum hollt, líkt og öllum öðrum. Þá verða einstakar virkjunarframkvæmdir ávallt og réttilega tilefni til skoðanaskipta, meðal annars frá sjónarhorni náttúruverndar. En því miður er gagnrýni á störf þessara fyrirtækja oft fjarri því að vera málefnaleg. Engu að síður virðist hún oft eiga afar greiða leið inn í fjölmiðla.

Klifað gegn betri vitund um raforkuverð
Sumir sem tala í nafni umhverfisverndar klifa til dæmis sífellt á því í fjölmiðlum að hér sé raforka seld stóriðju á einhvers konar undirverði. Engu er skeytt um svör er lúta að samanburði við meðaltalsverð til stóriðju í heiminum, eða að augljósum atriðum er varða stöðugleika í viðskiptum og magninnkaup, eða um að salan til stóriðju sé óvart uppspretta nær alls hagnaðar umræddra fyrirtækja og mikilvæg forsenda uppbyggingar sem öðrum nýtist. Gegn betri vitund er fremur klifað áfram um það sem af vandlætingu er kallað niðurgreitt verð, en um leið er gjarnan krafist sama raforkuverðs til annarra valinna atvinnugreina, sem ekki væri hægt að verða við nema óvart með stórfelldum niðurgreiðslum enda um að ræða margfalt minni og óstöðugri viðskipti. Þá hafa þessi fyrirtæki og starfsfólk þeirra undanfarin misseri mátt sitja undir skrautlegum viðtölum og fréttaflutningi um burðarþol stíflumannvirkja, um meinta vá sökum brennisteinsvetnis í andrúmslofti (maður þorði varla í sturtu og alls ekki að heimsækja Hveragerði) og þannig mætti lengi telja.

Gagnrýni fyrir að fara að lögum
Nú er komin fram ný tegund af gagnrýni á hendur einu fyrirtæki vegna virkjanaframkæmda. Í fjölmiðlum, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, var það gert tortryggilegt að umrætt fyrirtæki skyldi sjálft hafa látið vinna umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þetta er afar athyglisverð gagnrýni, því óvart er mælt fyrir um það í lögum um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili láti vinna slíkt mat. Matsferlið er hins vegar langt og að því koma ýmsir umsagnaraðilar auk að sjálfsögðu skipulagsyfirvalda, og ekki skal farið nánar út í það hér. En varla getur það talist eðlilegt að fyrirtækið sé gert tortryggilegt fyrir að fara eftir þeim lagabókstaf sem við á. Það eru takmörk.