Norðurál og Sjóvá verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Norðurál en framtak ársins á sviði umhverfismála á Sjóvá.

Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Norðurál
Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum og hefur fyrirtækið sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi. Norðurál er þátttakandi í þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem miða að því að þróa tæknilega lausnir sem gera það mögulegt.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands veitir forsvarsfólki umhverfismála Norðuráls verðlaunin. F.v. Sólveig Kr. Bergmann, yfirmaður samskipta, Steinunn Dögg Steinsen, yfirmaður umhverfis- og öryggismála og Gunnar Guðlaugsson, forstjóri.

Norðurál býður viðskiptavinum sínum umhverfisvænt ál undir vöruheitinu Natur-Al™. Það er markaðssett sem íslenskt ál, er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferilsins og vottað af óháðum aðilum. Þegar litið er á ferlið í heild, frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru, nemur kolefnisspor Natur-Al™ einungis fjórðungi af heimsmeðaltalinu.

Í umsögn valnefndar segir meðal annars að markmið fyrirtækisins séu skýr og aðgengileg en aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af vel skilgreindum aðgerðum sem er leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki.

Sjóvá
Sjóvá hlýtur verðlaunin umhverfisframtak ársins 2022 fyrir að huga vel að umhverfisáhrifum í starfsemi fyrirtækisins. Verðlaunin fær Sjóvá fyrir fjarskoðunarlausnina Innsýn og að vekja athygli viðskiptavina á umhverfislegum ávinningi sem fæst með framrúðuviðgerð í stað framrúðuskipta.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands veitir forsvarsfólki Sjóvá verðlaunin. F.v. Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs, Ólafur Þór Ólafsson, forstöðumaður eignatjóna, Hjalti Þór Guðmundsson, forstöðumaður ökutækjatjóna, Friðrik Helgi Árnason, hópstjóri eignatjóna og Pálín Dögg Helgadóttir, verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra.

Í röksemd dómnefndar kemur fram að Sjóvá leiti stöðugt leiða til að minnka umhverfisáhrif af tjónavinnslu með hag viðskiptavina og samfélagsins alls að leiðarljósi. Innsýn og framrúðuplásturs-verkefnið endurspegli þessar áherslur vel og styðji við hringrásarhagkerfið.

Fjarskoðunarlausnin Innsýn gerir tjónamatsmönnum Sjóvá kleift að skoða tjón í gegnum síma viðskiptavinar, og sparar þannig umtalsverðan akstur. Ef miðað er við meðaltal sparnaðar síðustu mánuði má áætla að sparast hafi yfir 100.000 km í akstri frá því lausnin var tekin í notkun í ársbyrjun 2021. Þannig hafi verið komið í veg fyrir losun yfir 15 tonna C02.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Gréta María Grétarsdóttir, formaður, Brynjólfur Bjarnason og Sandra Rán Ásgrímsdóttir.