Nóg komið af átökum – nýjar leiðir í fjármögnun

„Orkugeirinn er þjóðinni miklu mikilvægari en svo að hann megi vera átakavettangur árum saman. Nóg er komið af slíkum átökum.“ Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í lok ávarps síns á aðalfundi Samorku. Hvatti hún til þess að fólk sameinaðist um að skapa sátt með rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýrum gegnsæjum leikreglum. Það væri leiðin fram á við og upp úr efnahagslægðinni.

Í ávarpi sínu fjallaði Katrín um mikilvægi nýfjárfestinga tengdum orku- og stóriðjuframkvæmdum á þróun efnahagsmála, m.a. um þann mikla fjölda starfa sem slíkar fjárfestingar skapa. Hún fjallaði einnig um verðmæta þekkingu sem byggst hefur upp hérlendis á þessu sviði hjá verkfræðistofum, ÍSOR, Jarðborunum o.fl., um fjárfestingaverkefni framundan, rafbíla sem væntanlegir eru til landsins sem hluti af tilraunaverkefni á vegum iðnaðarráðuneytis og margt fleira.

Horft til nýrra leiða með fjármögnun
Katrín sagði óvissu og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir um framkvæmdir og gert það að verkum að við yrðum að horfa til nýrra leiða varðandi fjármögnun slíkra verkefna. Þetta sagði hún kunna að þýða aðkomu og jafnvel tímabundið eignarhald annarra aðila að orkuverkefnum, t.d. með verkefnafjármögnun.

Sjá erindi Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra á vef ráðuneytisins.