Mikil vonbrigði með rammaáætlun

Samorka lýsir í umsögn sinni miklum vonbrigðum með tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða – rammaáætlun. Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við það vinnulag sem viðhaft hefur verið við gerð tillögunnar, allt frá því að verkefnisstjórnin skilaði sínum faglegu niðurstöðum til ráðherra í júlí 2011. Í kjölfarið tók við tvöfalt ógagnsætt ferli og allar hinar fjölmörgu breytingar frá niðurstöðum verkefnisstjórnar hafa verið í sömu átt, þ.e. í þá átt að draga úr áherslum orkunýtingar. Faglegri vinnu verkefnisstjórnar hefur í raun verið varpað fyrir róða og niðurstaðan verður líklega ekki annað en stefna núverandi stjórnvalda í verndun og nýtingu, en ekki sú sátt um málaflokkinn sem vonast hafði verið eftir að áralöng vinna verkefnisstjórnar gæti orðið grundvöllur að. Umsögn Samorku má nálgast hér, og fylgiskjal með henni hér, þar sem tillagan er borin saman við niðurstöður verkefnisstjórnar.