Merki 100 ára afmælis hitaveitu á Íslandi

Hannað hefur verið merki eitt hundrað ára afmælis hitaveitu á Íslandi. Höfundur merkisins er Hlynur Ólafsson, grafískur hönnuður. Merkið sýnir á táknrænan hátt þau bættu lífsgæði sem fólgin eru í hitaveituvæðingu á Íslandi. Samorka heldur í samstarfi við hitaveitur í landinu upp á 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi á þessu ári. Er þar miðað við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar, sem virkjaði hver til húshitunar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908.

Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þar meðal annars horft til betri hitunar hýbýla, heilnæmara andrúmslofts og aukinna tækifæra til útivistar og hreyfingar tengdum sundlaugamenningu. Samorka mun minnast 100 ára afmælisins með ýmsu móti á þessu ári. Má þar nefna:

  • Gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp. Lífsmynd – Valdimar Leifsson kvikmyndagerð ehf. vinnur að gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp um hitaveitur á Íslandi. Handritshöfundur og þulur er Ari Trausti Guðmundsson.
  • Útilistaverk í Mosfellsbæ. Samorka og Mosfellsbær hafa í sameiningu valið úr tillögum í samkeppni um útilistaverk sem reist verður við Þverholt í hjarta Mosfellsbæjar. Auk 100 ára afmælis hitaveitu er verkið unnið í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar. Niðurstaða samkeppninnar verður kynnt innan tíðar, samhliða sýningu á verkum þeirra þriggja listamanna sem valdir voru úr opnu forvali til þátttöku í lokaðri samkeppni um verkið.
  • Samantekt um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi, unnin af Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri.
  • Fjölþjóðleg ráðstefna um hitaveitur, sem Háskóli Íslands skipuleggur í samstarfi við Nordic Energy Research og Samorku.

Loks mun Samorka standa fyrir prentútgáfu í tilefni af afmælinu og þá ber þess að geta að Íslandspóstur mun gefa út frímerki af þessu tilefni.