Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju

 

 
Í júlílok var lögð fram áfangaskýrsla Sjónarrandar ehf sem unnin er að beiðni fjármálaráðuneytisins um mat á arðsemi orkusölu til stóriðju, þar er einnig fjallað um arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og gerður samanburður við önnur fyrirtæki hérlendis og fyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu. Að auki er fjallað um kostnað vegna nýtingu náttúrugæða, þjóðhagslega hagkvæmni stóriðju o.fl.
Það sem fyrst vekur athygli er að skýrslan er unnin af aðilum sem hafa áður lýst efasemdum um verkefni tengd stóriðju og verður því að skoðast sem tilraun þeirra til þess að árétta áður sagða og gerða hluti.
Skýrslan virðist við fyrsta yfirlestur vera ónákvæm, bæði hvað varðar efnistökin sjálf sem og framsetningu.
Samanburður orkufyrirtækja hér og erlendis er fráleitur, þar sem um er að ræða starfsemi í opinberri eigu annarsvegar og skráð einkafyrirtæki hinsvegar. Krafa um arðsemi orku- og veitufyrirtækja hér á landi sem þjóna almenna markaðinum er fyrst og fremst lágt verð og góð þjónusta. Einkaaðilar gera hinsvegar kröfu um að fjármagn þeirra vaxi í samræmi við ávöxtun fjár á fjármagnsmörkuðum. Þar að auki virðast  vera alvarlegar villur í efnistökum svo sem mismunandi reikningsskilaaðferðir og skörun á tímabilum. Ef verið er að óska eftir meiri ávöxtun fjár er eina sýnilega leiðin að hækka verðið.
Hvað varðar ávöxtun fjár til stóriðju er ekki tekið á því sérstakleg, heldur er gerður samanburður á ávöxtun fjár Landsvirkjunar í heild, þar sem einnig eru sömu villurnar hvað varðar aðferðir og tímabil.
Vangaveltur skýrsluhöfunda um verðmæti náttúrugæða, mengunarkvóta og ábata þjóðarbúsins af erlendri fjárfestingu eru gamalkunnar og hafa verið viðraðar áður í þeirra skrifum og athöfnum.
Samorka mun fara betur yfir innihald skýrslunnar að loknum sumarleyfum, gera athugasemdir og leggja til leiðréttingar á þeim þáttum sem ranglega er farið með.
Ef svona úttekt á að vera trúverðug og nýtanleg til stefnumótunar verður hún að vera unnin í þeirri sátt sem aðeins gagnkvæmt traust getur myndað. Það er langur vegur frá því að slíkt náist með því að fela aðilum sem þegar hafa mótað sér skoðanir um tilveru þeirrar starfsemi sem um ræðir ásamt væntanlegum niðurstöðum rannsóknarinnar. Það hefði líka verið jafn fráleitt að fela einhverju orku- eða stóriðjufyrirtæki að gera slíka úttekt.
Þá hefur Samorka sent fjármálaráðuneytinu fyrirspurn þar sem óskað er svara við spurningum sem vaknað hafa um tilurð og innihald skýrslunnar.

Skýrslan í heild er vistuð á heimasíðu fjármálaráðuneytis og má nálgast á slóðinni: http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/frettatilkynningar/nr/12348