16. apríl 2010 Landsvirkjun: meðalverð til stóriðju 2,5 kr á kWst, en 3,5 kr til heimila Á ársfundi Landsvirkjunar kynnti Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, upplýsingar um raforkuverð og bar saman raforkuverð til heimila og til stóriðju. Fram kom að raforkuverð til heimila er lægra á Íslandi en í nágrannalöndum en að allur samanburður sé viðkvæmur fyrir gengissveiflum. Þá hafi skattar á raforku mikil áhrif á verð, en þeir eru misháir eftir löndum. Hvað raforkuverð til stóriðju varðar, þá kom fram að þeir raforkusamningar við stóriðju sem nú eru í gildi hér á landi séu tengdir álverði og hafi í för með sér miklar sveiflur á raforkuverði. Þá sé erfitt að bera saman orkuverð til stóriðju og hins almenna markaðar, þar sem nýtingarhlutfall, magn og tímabil orkukaupa séu ólík. Af þessum sökum greiði stóriðjan lægra verð fyrir raforku frá Landsvirkjun en almennur markaður. Á tímabilinu janúar til febrúar 2010 hafi stórðjufyrirtæki að meðaltali greitt 2,5 kr fyrir hverja kWst á meðan heimili greiði 3,5 krónur fyrir kWst. Erindi Harðar Arnarsonar má nálgast hér á vef Landsvirkjunar.