Landsvirkjun bakhjarl Kvenna í orkumálum

Frá undirritun samningsins: f.v. Helga Barðadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og stjórnarmaður Kvenna í orkumálum, Harpa Pétursdóttir, lögfræðingur hjá BBA og formaður Kvenna í orkumálum, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.
Frá undirritun samningsins: f.v. Helga Barðadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og stjórnarmaður Kvenna í orkumálum, Harpa Pétursdóttir, lögfræðingur hjá BBA og formaður Kvenna í orkumálum, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun verður bakhjarl félagsins Kvenna í orkumálum til tveggja ára. Skrifað var undir styrktarsamning þess efnis í vikunni.

Félagið Konur í orkumálum var stofnað fyrr á árinu og telja félagsmenn nú um 200 talsins. Félagið er opið öllum þeim sem starfa við orkumál eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi. Tilgangur félagsins er að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli, svo og að stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál.

Harpa Pétursdóttir, lögfræðingur hjá BBA og formaður Kvenna í orkumálum, þakkaði stuðninginn við við undirritun samningsins og sagði það mikið ánægjuefni að stjórnendur orkufyrirtækja á Íslandi sæju að ástæða sé til að auka hlut kvenna í geiranum, sem er einn megintilgangur félagsins.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við sama tilefni að það væri fyrirtækinu sérstaklega ánægjulegt að styrkja þennan félagsskap, hann hefði alla burði til að hafa jákvæð áhrif innan orkugeirans á komandi misserum og árum.

Fyrir er Landsbankinn einnig bakhjarl Kvenna í orkumálum, en tilkynnt var um þann samning í september.