3. maí 2016 Íslenskar jarðvísindakonur heiðraðar Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir hlutu á dögunum brautryðjendaverðlaun alþjóðasamtakanna Women in Geothermal, WING, fyrir framlag sitt til útbreiðslu jarðhitanotkunar í heiminum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim verðlaunin í móttöku samtakanna á jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Reykjavík dagana 26. -28. apríl. Hrefna var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í jarðfræði. Það gerði hún frá Oslóarháskóla árið 1970. Hún átti langan starfsferil sem jarðefnafræðingur á Orkustofnun og átti þátt í að þróa efnafræðilegar aðferðir við mat á jarðhitaholum sem nú er beitt við allar slíkar boranir. Hrefna hefur verið mikilvirk á vísindasviðinu og skrifað um 100 greinar sem birst hafa í vísindatímaritum. Ragna Karlsdóttir er jarðeðlisfræðingur sem einnig starfaði lengi hjá Orkustofnun og nú síðari ár hjá ÍSOR. Þar hóf hún störf árið 1970 og hefur komið að rannsóknum, líkanagerð og auðlindamati á öllum þeim háhitasvæðum sem nýtt eru hér á landi og flestum lághitasvæðunum með einhverjum hætti. Báðar hafa þær Ragna og Hrefna komið að starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er hér á landi. WING eru samtök sem hvetja til framgangs kvenna innan jarðhitageirans, styðja við konur sem þar starfa og leitast við að gera störf þeirra á þeim vettvangi sýnilegri. Samtökin voru stofnuð 2013. Móttaka WING var haldin í félagi við Konur í orkumálum, sem eru samtök kvenna sem starfa við orkumál á Íslandi. Þau samtök eru líka ný af nálinni. Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Andrea Blair, forseti WING, samkomuna.