Hvað á ráðherrann við?

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, heldur því fram hér í Morgunblaðinu 7. október að raforkuframleiðsla fyrir stóriðju hafi verið „stórlega niðurgreidd.“ Samorka óskar eftir að ráðherrann færi rök fyrir þessari staðhæfingu sinni, eða dragi hana ella til baka.

Um 80% raforkunnar í landinu fara nú til stóriðju en um 20% á almennan markað. Að jafnaði hefur raforkuverð á almennum markaði hérlendis farið lækkandi svo árum skiptir, að teknu tilliti til vísitölu neysluverðs, og er nú með því allra lægsta sem þekkist á Vesturlöndum. Á sama tíma hefur raforkuframleiðsla til stóriðju aukist hér stórlega. Varla getur ráðherrann lesið úr þessu að almenni markaðurinn, með sín 20 prósent á svo lágu verði, sé að niðurgreiða hin 80 prósentin sem fara til stóriðju? En hver er þá að niðurgreiða þessa raforku, að mati ráðherrans?

Lægra almennt orkuverð vegna stóriðjunnar
Á dögunum kom fram í skýrslu AtvinnuLífsinsSkóla að dæmigerð raforkunotkun heimila hefði lækkað um 30% í verði frá árinu 1997, á föstu verðlagi, að stórum hluta vegna aukinnar raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Þá mat Hagfræðistofnun Háskóla Íslands það nýlega svo að stóriðjan hér á landi væri að borga í meðallagi hátt verð, á heimsvísu, fyrir raforkuna. Hvað á ráðherrann við þegar hann fullyrðir að hér sé verið að niðurgreiða orkuna til stóriðju?