Heita vatnið: Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur

Út er kominn nýr bæklingur Samorku í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Á þessum tímamótum leggja samtökin áherslu á þau bættu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, svo sem heilnæmara andrúmsloft, betur hituð hýbýli og betri tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs sem tengja má við okkar ríku sundlaugamenningu og mikinn fjölda snjóbræðslukerfa.

Tæp 90% landsmanna hita hús sín með hitaveitu sem byggð er á jarðhita. Flestir aðrir búa við rafmagnshitun en rúm 3% hita hús sín með hitaveitu sem byggist á olíu eða rafmagni. Heitir pottar við íbúðarhús og sumarbústaði skipta tugum þúsunda, flestir þeirra hitaðir með jarðhitavatni. Snjóbræðslukerfin skipta einnig tugum þúsunda, í gangstéttum, bílastæðum og bílaplönum. Loks eru hér á landi um 165 sundlaugar. Þar af eru 130 hitaðar með jarðhitavatni.

Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur
Alls nota Íslendingar um 126 milljónir rúmmetra af jarðhitavatni til húshitunar, baða, snjóbræðslu og svo framvegis á ári hverju, eða sem nemur rúmlega 5.200 fullum Hallgrímskirkjum af jarðhitavatni (ekki svo að skilja að nokkur myndi vilja dæla heitu vatni inn í þau glæstu húsakynni, að ofna- og lagnakerfum undanskildum!).

Frumkvöðlar í upphafi 20. aldar
Dæmi um nýtingu heitra lauga til þvotta, iðnaðar, matargerðar og jafnvel lækninga er víða að finna í sögulegum heimildum. Upphaf hitaveituvæðingar á Íslandi er þó rakið til ársins 1908, en það ár var jarðhiti fyrst nýttur hér svo vitað sé til að hita upp íbúðarhús. Var þar að verki Stefán B. Jónsson, bóndi, trésmiður og frumkvöðull með meiru, að Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Stefán leiddi vatn úr hver inn í bæinn en jafnframt voru fleiri frumkvöðlar að huga að gerð hitaveitu á þessum árum.

Bætt heilsufar og almenn lífsgæði
Víða má finna lítt aðlaðandi lýsingar á lífinu með kolakyndingu áður fyrr og ekki getur olíukynding talist sérlega umhverfisvæn. Nú á dögum finnst okkur það sjálfsögð lífsgæði að geta hitað hýbýli okkar með ódýru heitu vatni, sótt heitar sundlaugar allt árið um kring, brætt snjó í gangstéttum og götum og andað um leið að okkur hreinna og heilnæmara lofti en ella. Að baki þessum þægindum liggur hins vegar eitt hundrað ára saga hugvits, frumkvæðis og framkvæmdaþreks, sem við njótum ávaxtanna af í öllu okkar daglega lífi í dag.

Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Húshitun með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella hefðu farið í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (í seinni tíð hefði rafkynding líklega smám saman tekið við en þá þyrfti líka að afla raforkunnar). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og kolum og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu.

Bæklinginn má skoða hér, en úr prentun er hann af stærðinni 44 * 21 cm. Auglýsingastofan Skaparinn sá um hönnun.