25. september 2008 Heita silfrið Hitaveita á Íslandi í 100 ár Samorka hefur gefið út blað í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Heita silfrið heitir blaðið og er því dreift með Morgunblaðinu í dag, 25. september. Í blaðinu er fjallað um sögu hitaveitu á Íslandi, rætt við fjölda fólks um þau auknu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, fjallað um sögu jarðhitanýtingar á Íslandi, þróun þekkingar á þessu sviði, ungbarnasund, ferðaþjónustu, jarðhitaleit og margt fleira. Umsjón, textagerð og umbrot voru í höndum Athygli ehf. Ávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku og forstjóra Norðurorku, fer hér á eftir. Blaðið má nálgast hér á pdf-formi (7,6 mb). Ávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku: Bætt heilsufar og almenn lífsgæði Flest getum við Íslendingar nú á dögum flokkað það sem sjálfsögð lífsgæði að geta hitað hýbýli okkar með ódýru heitu vatni, sótt heitar sundlaugar allt árið um kring, brætt snjó í gangstéttum og götum og andað um leið að okkur hreinu og heilnæmu lofti. Að baki þessum þægindum liggur hins vegar eitt hundrað ára saga hugvits, frumkvæðis og framkvæmdaþreks, varðandi nýtingu jarðhita sem við njótum ávaxtanna af í öllu okkar daglega lífi. Saga jarðhitanýtingar á Íslandi er trúlega um það bil jafn löng og saga byggðar í landinu. Í sögulegum heimildum má finna fjölda dæma um nýtingu jarðhita til þvotta, baða, eldamennsku, iðnaðar og heilsueflingar. Mynjar benda til að Snorri Sturluson hafi á sínum tíma leitt heitt vatn í hús, líklega þó aðallega til þvotta. Elsta þekkta dæmið um nýtingu jarðhita til húshitunar á Íslandi er hins vegar að finna í Mosfellsbæ, nánar til tekið á bænum Syðri-Reykjum. Árið 1908 virkjaði Stefán B. Jónsson á Syðri-Reykjum hver til húshitunar og lagði „nútíma“ hitakerfi í íbúðarhús sitt. Í tilefni þessa ákvað Samorka að halda upp á 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi nú í ár. Hlýrri hýbýli, hreinna loft, útivist…Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þar meðal annars horft til betri hitunar hýbýla, heilnæmara andrúmslofts og aukinna tækifæra til útivistar og hreyfingar tengdum sundlaugamenningu. Fyrir fáum áratugum gegndi olía stóru hlutverki í húshitun á Íslandi, og kol ef horft er lengra aftur á síðustu öld. Fyrir utan minni mengun getum við jafnframt glaðst yfir því að undanfarna áratugi hefur hitaveitan sparað Íslendingum tugi milljarða króna á ári hverju, sem ella hefðu farið í innflutning á olíu. Í dag væri líkast til notast við raforku í auknum mæli í stað olíu ef ekki nyti við hitaveitunnar. Til þess þyrfti að virkja ár og háhitasvæði sem er mun dýrara en virkjun lághita fyrir hitaveitu. Þetta mundi jafnframt draga úr öðrum möguleikum til raforkunýtingar enda jafngildir sú orka sem nýtt er hjá hitaveitum í dag 600 MW að meðaltali og á álagstímum að vetralagi allt að 1000MW eða fast að tveimur Kárahnúkavirkjunum. Hitaveitan hefur því ekki eingöngu haft í för með sér bætt lífsgæði, heldur jafnframt séð þjóðinni fyrir ódýrri húshitun, sparað gríðarlegar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri og verið vettvangur þekkingaruppbyggingar sem nú er forsenda útrásarverkefna víða um heim. Aldarafmælis minnstSamorka minnist 100 ára afmælisins með ýmsu móti á þessu ári. Má þar nefna gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp, uppsetningu útilistaverks í samstarfi við bæjarstjórn Mosfellsbæjar, samantekt Háskólans á Akureyri um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi, fjölþjóðlega ráðstefnu í samstarfi við Háskóla Íslands og Nordic Energy Research, að ógleymdri útgáfu þessa blaðs. Þá gaf Íslandspóstur út frímerki í tilefni 100 ára afmælisins í maí síðastliðnum. Einstakar hitaveitur hafa einnig minnst þessara tímamóta með ýmsum hætti. Á 100 ára afmælinu minnum við á þau lífsgæði sem hitaveitunum fylgja, horfum með þakklæti aftur til frumkvöðla hitaveituvæðingar og veltum fyrir okkur framtíðaráskorunum á borð við hitaveituvæðingu á svokölluðum köldum svæðum. Franz Árnason