Heimurinn allur undir

Vegna hlýnunar á lofthjúpi jarðar er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, sem ekki losa gróðurhúlofttegundir eins og jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Fyrirtækið Geysir Green Energy hefur sett sér það markmið að verða alþjóðlega leiðandi fyrirtæki á sviði jarðvarma. Fyrirtækið leitar markaðstækifæra í virkjun jarðvarma, fjárfestir í þróun og smíði jarðvarmavirkjana, yfirtekur jarðvarmavirkjanir í eigu orkufyrirtækja og tekur þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja víðs vegar um heiminn. Markaðssvæðið er heimurinn allur. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysir Green Energy, á hádegisverðarfundi í kjölfar aðalfundar Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Í erindi sínu fjallaði Ásgeir um vaxandi eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku, og um stofnun og markmið Geysir Green Energy. Hann vitnaði meðal annars í svonefnda Stern-skýrslu um loftslagsmál en samkvæmt henni er framtíðin fólgin í endurnýjanlegri orku sem beisluð er á sjálfbæran hátt.

Gufuafl mæti 10% af orkuþörf Bandaríkjanna árið 2050
Evrópusambandið er meðal þeirra sem sett hafa sér háleit markmið um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á næstu árum og áratugum og áætlað hefur verið að árið 2050 verði hægt að mæta 10% af frumorkuþörf Bandaríkjanna með nýtingu gufuafls.

Áratuga reynsla á Íslandi
Ásgeir fjallaði um það hvernig Íslendingar búa yfir áratuga þekkingu og reynslu á sviði jarðvarma, en skortur er á þessari þekkingu víða erlendis þar sem háhitasvæði er að finna. Geysir Green Energy – sem stofnað var nýlega af Glitni, FL Group og VGK Hönnun – leggur áherslu á jarðvarmaorku og hyggst fjárfesta fyrir einn milljarð Bandaríkjadala í verkefnum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Ásgeir fjallaði um nokkur verkefni sem Geysir Green Energy tengist nú þegar vegna hlutdeildar sinnar í fyrirtækjunum Enex, Enex Kína og Exorku.

Heimurinn allur undir
Markmið Geysis er að verða alþjóðlega leiðandi fyrirtæki á sviði jarðvarma. Fyrirtækið leitar markaðstækifæra í virkjun jarðvarma, fjárfestir í þróun og smíði jarðvarmavirkjana, yfirtekur jarðvarmavirkjanir í eigu orkufyrirtækja og tekur þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja víðs vegar um heiminn. Markaðssvæðið er heimurinn allur.

Sjá erindi Ásgeirs Margeirssonar