Gróska í nýtingu birtuorku á Íslandi

Sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hér á landi eru áhugasöm um að nýta birtuorku (sólarorku) til eigin nota. Tæknin verður sífellt hagkvæmari og með betri rafhlöðutækni og meiri álagsstýringu fer birtuorka að verða raunhæfari kostur.

Um allan heim er gríðarleg gróska í þessum geira og birtuorka er sístækkandi hluti af raforkuframleiðslu í fjölmörgum löndum. Á opnum tæknifundi Samorku í morgun var rætt um möguleika til nýtingar á sólarorku í raforkukerfi Íslands.

Á fundinum tóku til máls þeir Bergur Haukdal, framkvæmdastjóri Netbergs, sem sagði frá þróun í smærri sólarorkuframleiðslu hér á landi. Hann talaði um vaxandi áhuga, til dæmis meðal bænda, til að setja upp sólarsellur en það þyrfti að bæta regluverkið hvað varðar að mata orkuna inn á kerfið. Þá talaði Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, meðal annars um hönnun birtuorkukerfa og rafhlöðutækni með hleðslustöðvum sem hafa gefið góða raun. Að lokum fór Kjartan Rolf Árnason, þróunarstjóri RARIK, yfir áskoranir dreifiveitna og tækifærin þegar kemur að birtuorku, en þar þarf að horfa til ýmissa tæknilegra þátta til að nýta þetta sem best.

Upptaka af fundinum: