21. október 2009 Gríðarmikil jarðhitaorka – nýtingartæknin í þróun Endurnýjanleiki er eðli orkulindar, sjálfbærni vísar til orkuvinnslu. Á þetta lagði Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, áherslu í erindi á opnum fundi um sjálfbæra nýtingu jarðhitans á Hilton Nordica. Ólafur varaði við hugtakaruglingi og nefndi ýmis dæmi úr opinberri umræðu þar sem endurnýjanleika og sjálfbærni væri ruglað saman. Hann sagði jarðhita mun nær því að vera endurnýjanlega orkulind en óendurnýjanlega, þótt vissulega væri hægt að umgangast jarðhitann á ósjálfbæran hátt. Jarðhitinn væri enda skilgreindur sem endurnýjanleg orkulind á alþjóðavísu. Pólitískt þjónaði það hins vegar mest hagsmunum jarðefna- og kjarnorkuiðnaðar að draga þessa flokkun í efa og sagði Ólafur það andstætt náttúruverndarsjónarmiðum. Röng fullyrðing Sigmundar Einarssonar Ólafur sagði það ranga fullyrðingu í umtalaðri grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings, að „stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands“ væri tómt plat. Hann sagði orkuna hér vera gríðarmikla en við byggjum hins vegar enn aðeins yfir tækni til að nýta hluta hennar á hagkvæman hátt. Næg orka til álvera á Bakka og í Helguvík væri vissulega til staðar, en ekki væri búið að ná henni og ekki víst að það tækist með hefðbundnum og fremur ódýrum aðferðum að vinna alla þessa orku á sjálfbæran hátt úr jarðhita. Þetta væri sú óvissa sem alltaf fylgdi jarðhitavinnslu og oft skorti skilning á. Ólafur sagði því mikilvægt að byggja jarðhitavirkjanir upp í áföngum og vinna markvisst að rannsóknum og þróun á tækninýjungum. Að fundinum stóðu Samorka, ÍSOR, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands og GEORG (Geothermal Research Group). Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn. Sjá erindi Ólafs G. Flóvenz.