12. september 2017 Grettistaki lyft í fráveitumálum síðustu áratugi Undanfarna áratugi hefur verið lyft grettistaki í fráveitumálum hér á landi. Fyrir 25 árum, árið 1992, voru eingöngu 6% landsmanna tengd skólphreinsistöð en á því næsta verður hlutfallið 84%, miðað við áætlanir. Upplýsingarnar sem fram koma í úttekt Umhverfisstofnunar um ástand skólphreinsimála og fjallað var um í hádegisfréttum RÚV 11. september 2017 sýna vissulega að betur hefði mátt standa að þessum málum á árunum 2010-2014. En um leið vill Samorka benda á að umrætt tímabil er óheppilegt til sérstakrar úttektar. Þessi ár voru sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og ekki mikið svigrúm til framkvæmda. Stuðningur frá ríkinu, sem samþykkt hafði verið að veita í þessar framkvæmdir, féllu niður og hafa ekki verið settir aftur á. Frá 2014 hafa framkvæmdir farið aftur af stað sem munu breyta skólphreinsimálum til hins betra. Má þar nefna hönnun og útboð nýrrar hreinsistöðvar á Akureyri og framundan eru stórar framkvæmdir í pípunum, sem mun hækka hlutfall landsmanna sem tengdir eru við skólphreinsistöð allverulega. Á Íslandi gilda ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó og hafa ítarlegar rannsóknir á viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík sýnt að losun hefur hverfandi áhrif á lífríkið. Fráveitumál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og er verkefninu ekki lokið þó að því miði vel áfram. Til að uppbygging skólphreinsikerfis geti haldið áfram eins og áætlað er, er mikilvægt að lög og reglugerðir fyrir fráveitu verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu. Samorka tekur undir með Umhverfisstofnun að hreint vatn er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga og fagnar allri umræðu um að bera skuli virðingu fyrir henni. Allir þurfa að ganga vel um fráveitukerfin og muna að klósettið er ekki ruslafata – ýtum ekki undir kostnaðarsamar og óþarfa aðgerðir í skólphreinsun.