Fyrsti hátækniiðnaðurinn á Íslandi

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Í líflegri umræðu um framtíð lands og þjóðar er iðulega lögð áhersla á mikilvægi atvinnugreina sem flokkaðar eru sem hátækni- og þekkingargreinar. Fjallað er um mikilvægi þess að virkja ríkan frumkvöðlaanda íslensku þjóðarinnar og að okkur beri að leggja áherslu á mikilvægi menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Þeir munu vandfundnir sem ekki styðja slíka framtíðarsýn og þótt ávallt megi betur gera er staða Íslands blessunarlega að mörgu leyti mjög sterk á þessa mælikvarða í dag. Þá stöðu getum við meðal annars þakkað framsæknu brautryðjendastarfi íslenskra orkufyrirtækja undanfarna áratugi. Nýting endurnýjanlegra orkulinda er gott dæmi um hvoru tveggja menntalandið Ísland og frumkvöðlalandið Ísland.

Nýting orkulinda er þekkingariðnaður
„Orkan virkjuð“ auglýsti nýsameinað verkfræðifyrirtæki, VGK Hönnun, á dögunum og greindi frá því að með sameiningunni væri starfsorka 240 sérfræðinga virkjuð til hins ítrasta. Fram kom að meðal verkefna fyrirtækisins væru rannsóknir, hönnun og ráðgjöf í tengslum við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þá hefur fyrirtækið, ásamt Glitni og FL Group, stofnað alþjóðlega fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy um sjálfbæra orkuvinnslu, enda mikil tækifæri erlendis á grundvelli þeirrar miklu þekkingar sem Íslendingar hafa þróað á þessu sviði. Hjá íslenskum orkufyrirtækjum starfa nú fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga og stjórnenda, flestir með tækni- eða verkfræðimenntun. Heildarfjöldi ársverka háskólamenntaðra er þó langtum meiri í greininni, samanber auglýsingu verkfræðifyrirtækisins sem fjallað er um hér að framan, en orkufyrirtækin kaupa margvíslega sérfræðiþjónustu af öðrum aðilum á markaði – verkfræðingum, jarðfræðingum, arkitektum og þannig mætti lengi telja. Ennfremur hafa íslensk orkufyrirtæki lengi verið í fararbroddi á sviði sí- og endurmenntunar fyrir iðnmenntað og ófaglært starfsfólk.

Dr. Ágúst Valfells, lektor við Háskólann í Reykjavík, hefur í erindi (sjá sa.is) meðal annars lýst því hvernig virkjun raforku og álframleiðsla voru fyrsti hátækniiðnaðurinn á Íslandi, og hvernig öflugur en „orkugrannur“ hátækni- og þekkingariðnaður í aldarlok spratt að miklu leyti upp úr þeim jarðvegi sem virkjanir og álframleiðsla hefðu átt stóran þátt í að móta. Ágúst sýndi dæmi um hvernig fjöldi nemenda í verk- og tæknifræði, stærðfræði og náttúruvísindum hefur aukist í takt við aukna framleiðslu á raforku síðustu áratugi. Hann fjallaði um gríðarlegt mikilvægi orku- og álframleiðslunnar fyrir þennan hóp og nefndi sem dæmi að Landsvirkjun ein hefði á árunum 2000 til 2004 keypt rannsóknar- og hönnunarþjónustu fyrir tæpa tvo milljarða króna á ári. Nýting endurnýjanlegra orkulinda og álframleiðsla eru hvoru tveggja dæmi um þekkingariðnað sem skiptir gríðarlegu máli fyrir íslenskt mennta- og nýsköpunarumhverfi. Þessar greinar eru þess vegna mikilvægur hluti menntalandsins Íslands og frumkvöðlalandsins Íslands.

Fyrirséð hagstjórnarverkefni
Raunar er stundum á það bent að stórframkvæmdir tengdar nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og stóriðju stuðli að þenslu sem aftur trufli starfsumhverfi frumkvöðla og raunar ýmissa fyrirtækja, ekki síst í útflutningi. Er þá einkum horft til hás gengis krónunnar. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands kynnti í síðasta mánuði er bent á nokkra áhrifaþætti þenslu undanfarinna missera, en mest vægi er þó ætlað fjárfestingum í orkuverum og stóriðju annars vegar, og breytingum á íbúðalánamarkaði hins vegar. Ljóst er að hlutur stórframkvæmdanna er talsverður en áhrif þeirra eru þó sérstök að því leyti til, líkt og bent er á í skýrslunni, að þau eru að mestu fyrirséð og því hægt að bregðast við þeim í tíma í hagstjórninni. En þótt þenslan og hátt gengi krónunnar verði að einhverju leyti rakin til þessara framkvæmda þá útskýra þær augljóslega ekki að innan ársins 2006 sveiflaðist gengisvísitala krónunnar milli gildanna 103 og 133, svo dæmi sé tekið. Þetta er gríðarleg gengissveifla og ljóst að þarna var eitthvað annað að valda umróti í íslensku efnahagslífi.

Nýting endurnýjanlegra orkulinda er gott dæmi um hátækni- og þekkingariðnað sem styður jafnframt við aðrar slíkar atvinnugreinar og stuðlar þannig með fjölbreyttum hætti að öflugu mennta-, rannsókna- og nýsköpunarumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf.