Fuglaflensa í neysluvatni – er ástæða til að hafa áhyggjur?

Ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af því að fuglaflensa berist með neysluvatni.  Ýmsir hafa verið að velta því fyrir sér hvort opnum vatnsbólum stafi hætta af því ef sýktir fuglar berast í vatnsból og að sýkin berist þannig með drykkjarvatni til fólks.  Samkvæmt samtali við Ásu Atladóttur hjá Landlæknisembættinu er ekki talin hætta á því.  Ef sú hætta væri fyrir hendi væri mikið meira um slíkar sýkingar en raunin er.  Tiltölulega fáir eru að sýkjast þrátt fyrir að veiran hafi greinst í fuglum víða um heim. Þeir sem hafa veikst hafa allir verið í návígi við fugla og víða í Asíu er það návígi mikið. 

 

Fuglaflensan er veira að gerðinni H5N1. Hún lifir 35 daga við 4°C í vatni og lengur eftir því sem vatnið er kaldara. Hún getur verið í fuglum og fleiri dýrum s.s. selum, hvölum, hestum, svínum, minkum og köttum án þess að þau veikist eða sýni einkenni um veikina. Alifuglar eru hinsvegar mikið viðkvæmari fyrir veirunni og veikjast frekar. Áætlað er að um 70% af alifuglum í heiminum sé ræktað í bakgörðum og aðalhættan er fyrir börn sem eru á leik þar sem sýktir fuglar eru.  Hættan sem vofir yfir er að veiran berist í manneskju sem er með svipaða tegund af inflúensu og hún stökkbreytist þar og fari að berast á milli manna.  Þetta er það sem talið er að hafi gerst þegar spánska veikin herjaði á heimsbyggðina fyrir nær hundrað árum. Sótthreinsun með spritt,  klór og geislun drepur veiruna.  Hitun í 56°C í 3 klst eða í 60°C í 30 mínútur eða í 70°C í 1 mínútu drepur einnig veiruna.

 

Þrátt fyrir að ekki sé mikil hætta á að veiran berist með neysluvatni er samt sjálfsagt að hafa varann á og huga að ráðstöfunum þar sem eru opin vatnsból.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins eru svör við algengum spurningum um fuglaflensu. Sjá www.landlaeknir.is