Framkvæmdir og leikreglur

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Algeng rök gegn byggingu álvers í Helguvík eru á þá leið að ekki sé ýkja mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum, þar séu fremur konur en karlar án atvinnu og þær sæki síður en karlar í vinnustaði á borð við álver. Þá sé ekki búið að tryggja orku fyrir vænta stækkun álversins síðar meir. En er það hlutverk stjórnmálamanna að stýra annars sjálfsprottinni uppbyggingu atvinnulífs út frá sjónarmiðum á borð við þessi?

Nú er það raunar svo að á annað hundrað kvenna starfar hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Aðalatriðið er hins vegar það að fjárfestingar eins og þessi eiga ekki sífellt að vera settar í einhvers konar varnarstöðu af hálfu fólks úti í bæ sem telur sig hafa þarna betri yfirsýn yfir alla hluti. Nýlega bárust þannig fréttir af því að erlend leikfangakeðja hyggist síðar á þessu ári opna nýjar verslanir í Grafarholti og á Akureyri. Hvað ef tölur sýna nú að atvinnuleysi meðal íbúa í Grafarholti og á Akureyri sé mest í hópi eldra fólks? Henta þessi störf kannski betur fyrir ungt fólk? Ætti þá ef til vill að stöðva þessi áform? Og hvað með ef útgerðir kaupa ný skip, án þess að hafa fyrirfram tryggt þeim nægan kvóta næstu árin? Þarf ekki að koma upp stjórntækjum til að stöðva slíkt ábyrgðarleysi? Auðvitað er þetta fráleit umræða.

Ekki kjaftastétta að dæma
Bygging álvers í Helguvík á einfaldlega að lúta þeim almennu leikreglum sem öll fyrirtæki lúta með sínar framkvæmdir og fjárfestingar. Umhverfismat, framkvæmdaleyfi, skipulagsmál og hvað það nú allt heitir sem unnið hefur verið að í fjögur ár, í samstarfi við sveitarstjórnir og fleiri aðila. En það er ekki hlutverk stjórnmálamanna eða svonefndra kjaftastétta að fella dóma um þessi áform út frá eigin sjónarmiðum um það hverjum slík störf henti, hversu mikil eftirspurn verði eftir þeim, eða hvort forsvarsmenn umrædds fyrirtækis séu örugglega búnir að reikna dæmið til enda. Ekki frekar en gildir um fjárfestingaráform fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum.