Formaður SA: Orkusala til erlendra stórfyrirtækja arðsöm – frestun á uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar yrði ótrúleg skammsýni

„Því hefur verið haldið fram, að erlend stórfyrirtæki sæki hingað til lands vegna þess að rafmagn sé fáanlegt á gjafverði. Hið rétta er, að verðið stendur undir þeim kostnaði, sem öflun orkunnar hefur í för með sér, og skilar eigendum orkufyrirtækjanna hæfilegum arði.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna. Ingimundur fjallaði meðal annars um fjárfestingu í orkuöflun og uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar sem legði drög að útflutningstekjum til langrar framtíðar, um hátekjustörf í slíkum greinum og sagði að mikill árangur undanfarinna áratuga á íslenskum vinnumarkaði hefði að stórum hluta verið borinn uppi af auknum umsvifum í orkufrekum hátækniiðnaði og afleiddum áhrifum þeirra. Ingimundur sagði það ótrúlega skammsýni ef íslensk stjórnvöld létu sér detta í hug að gefa út yfirlýsingu um það, að nú skyldi öllum hugmyndum um orkufrekan hátækniiðnað slegið á frest.

Úr ræðu Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna:

„Umfangsmesta fjárfesting hér á landi undanfarin ár hefur verið á sviði orkuöflunar og uppbyggingar orkufreks iðnaðar. Slík uppbygging er sérstakt fagnaðarefni, þar sem með henni er verið að leggja drög að útflutningstekjum til langrar framtíðar. Þau störf, sem þar verða til, eru raunveruleg hátekjustörf og getur verkafólk í þeirri atvinnugrein reiknað með um 350 þúsund króna föstum mánaðarlaunum, sem er hátt yfir meðallaunum. Undanfarinn áratug hafa þrjú fyrirtæki, sem teljast til orkufreks iðnaðar, starfað í landinu og hið fjórða er nýtekið til starfa. Ekki eru í hendi endanlegar ákvarðanir um frekari uppbyggingu í greininni, þótt vissulega séu nokkur verkefni á döfinni, en rétt er að hafa í huga, að á undanförnum áratugum hefur ítrekað verið leitað eftir uppbyggingu fyrirtækja í orkufrekum iðnaði hér á landi án þess að af henni hafi orðið. Í því sambandi er tilefni til þess að rifja það upp, að í aðdraganda Alþingiskosninga árið 1995 var atvinnuleysi hér á landi um 6%. Áhersluatriði stjórnmálanna á þeim tíma lágu fyrst og fremst í því að tryggja ný störf og settu metnaðarfullir stjórnmálaflokkar sér það markmið að tryggja um 12.000 ný störf fyrir árið 2000. Sá árangur hefur vissulega náðst og gott betur, þar sem störfum hefur fjölgað um tæplega 30.0000 síðan þá, en vert er að hafa í huga, að meðgöngutíminn hefur verið býsna langur og árangurinn á almennum vinnumarkaði er að
stórum hluta borinn uppi af auknum umsvifum í orkufrekum hátækniiðnaði og afleiddum áhrifum þeirra.

Því hefur verið haldið fram, að erlend stórfyrirtæki sæki hingað til lands vegna þess að rafmagn sé fáanlegt á gjafverði. Hið rétta er, að verðið stendur undir þeim kostnaði, sem öflun orkunnar hefur í för með sér, og skilar eigendum orkufyrirtækjanna hæfilegum arði. Erlend stórfyrirtæki sækjast vissulega eftir orkuverði, sem er alþjóðlega samkeppnishæft, en þau sækjast ekki síður eftir hátæknisamfélaginu á Íslandi, þar sem völ er á vel menntuðu og dugmiklu starfsfólki og nú í seinni tíð stöðugleika og hagstæðu almennu rekstrarumhverfi. Eins og menn hafa kynnst er undirbúningstími þessara verkefna langur og eru fjölmargir þættir skoðaðir ofan í kjölinn. Það væri því ótrúleg skammsýni, ef íslensk stjórnvöld létu sér detta í hug að gefa út yfirlýsingu um það, að nú skuli öllum hugmyndum um orkufrekan hátækniiðnað slegið á frest. Afleiðingin yrði fyrst og fremst
sú, að hætt yrði við þær athuganir, sem þegar eru hafnar eða í undirbúningi kunna að vera. Komi til þess að fjórum árum liðnum, að hefjast þurfi handa um frekari
atvinnuuppbyggingu, þá er ekki víst að neinn áhuga verði að finna og væri raunar líklegra að mörg ár tæki að byggja upp trúverðugleika gagnvart slíkri uppbyggingu. Tíu ár eru langur tími í pólitík, en þau eru ekki langur tími, þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífs.“

Sjá ræðu Ingimundar í heild á vef Samtaka atvinnulífsins.