26. maí 2020 Fá vatn úr virkjunum í stað borholna Hitaveita Veitna mun á næstu dögum breyta afhendingu heits vatns í nokkrum hverfum borgarinnar og í Mosfellsbæ svo þau fái upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hverfin sem fá virkjanavatn í stað jarðhitavatns eru Reykjavík vestan Elliðaáa ásamt Árbæjarhverfum og Mosfellsbær. Fyrri hluti vatnsskiptanna verður framkvæmdur á morgun, þann 27. maí, þar sem virkjanavatni verður veitt inn á austari hluta Reykjavíkur. Svæðið sem breytingin nær til er því frá Kringlumýrabraut og austur úr, til og með Ártúnsholti. Síðari hluti verður svo framkvæmdur um viku síðar þar sem skipt verður um vatn í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og í Mosfellsbæ. Að því loknu verður allt höfuðborgarsvæðið, nema Kjalarnes og Mosfellsdalur, komið á virkjanavatn. Lítil áhrif á notendur Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við einhverjar minniháttar truflanir á meðan skipt er yfir þótt það sé ekki líklegt. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ráðgert er að þessi tilhögun standi fram í ágúst. Svipað fyrirkomulag var haft á afhendingu vatns í nokkrum hverfum um tíma sl. sumar og gafst það vel. Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. Ekki er marktækur munur á þessum tveimur tegundum af vatni þannig að notendur ættu ekki að finna mun á vatninu. Engar breytingar verða á hitastigi eða þrýstingi í hitaveitunni við skiptin. Létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum Þessari tímabundnu aðgerð er ætlað að stækka dreifisvæðið sem fær virkjanavatn til að nýta betur framleiðslugetu virkjana. Á meðan er létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ sem gerir mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Aukin notkun heits vatns á hvern einstakling, mikil uppbygging og þétting byggðar í þeim hverfum sem nýta jarðhitavatn skapar álag á jarðhitasvæðin sem bregðast þarf við. Í sögulegu samhengi er staðan þokkaleg en til að tryggja sjálfbærni þessarar dýrmætu auðlindar til framtíðar þarf að auka hlut virkjanavatnsins og minnka hlut jarðhitavatnsins. Framleiðsla virkjanavatns aukin Í framtíðarskipulagi hitaveitu Veitna er virkjanavatni ætlað stærra hlutverk. Með það fyrir augum hefur framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar á heitu vatni verið aukin með stækkun varmastöðvar sem lauk fyrr í þessum mánuði. Samhliða þeirri stækkun verða Árbærinn og Úlfarsárdalurinn settir á virkjanavatn til frambúðar.