ESB um græna orku: verðmætasköpun og aukið orkuöryggi – tækifæri fyrir Ísland

Í átt til grænna hagkerfis – Greening the Economy – var yfirskrift European Business Summit í Brussel á dögunum, en þar er á ferðinni eins konar aðalfundur Evrópusamtaka atvinnulífsins. Fundinn ávarpaði fjöldi forystumanna evrópsks atvinnulífs, stjórnmála og Evrópustofnana. Fulltrúi Samorku sat fundinn í ár en orkumál voru í forgrunni umræðunnar. Óhætt er að segja að margt fróðlegt hafi þarna borið á góma, þótt staða Íslands á sviði orkumála sé mjög frábrugðin því sem gerist innan Evrópusambandsins (ESB).

Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram tillögu um þrjú markmið fyrir sambandið sem ná skuli árið 2020, og hljóma þau öll upp á 20% – bætt orkunýting, hlutur endurnýjanlegra orkugjafa og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Þess ber að geta að hérlendis er þetta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 75% og stefnir í 80% síðar á þessu ári. Eru þessar tillögur ESB gjarnan kallaðar „græni pakkinn“ en málið er þó ekki alveg svo einfalt.

Verðmætasköpun – eftirspurn mætt
Í ræðu sinni á fundinum lagði þannig José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, áherslu á það að þessi markmiðssetning ESB myndi hafa í för með sér mikla rannsókna- og þróunarvinnu og að eftirspurnin eftir nýrri tækni myndi fara vaxandi um heim allan á komandi árum. Þarna þyrfti ESB að taka forystuna og í kjölfarið myndi hinn svonefndi græni pakki í raun stuðla að hagvexti og nýjum störfum – verðmætasköpun. Ekki voru þó allir sammála þessari nálgun en árlegur kostnaður við græna pakkann svonefnda hefur verið metinn á allt frá 0,6% til 1-2% þjóðarframleiðslu ESB.

Aukið orkuöryggi
Andris Piebalgs, sem fer með orkumálin í framkvæmdastjórn ESB, lagði hins vegar á það áherslu að stefna ESB um bætta orkunýtingu og aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa væri jafnframt mikilvægt framlag til eflingar á orkuöryggi aðildarríkjanna. Mörg ríki ESB eru mjög háð innflutningi á orkugjöfum, meðal annars á gasi frá Rússlandi, og hefur sú staða lengi verið mörgum hugleikin innan ESB.

Allt önnur staða hér – tækifæri fyrir Ísland
Ísland er sem fyrr segir í allt annarri stöðu en aðildarríki ESB. Hér er hlutur endurnýjanlegra orkugjafa þegar margfalt hærri en þessi ríki hafa sett stefnuna á, eða 75% og stefnir í 80%. Þá eru Íslendingar blessunarlega miklu minna háðir innflutningi orkugjafa en flest samanburðarríki, enda 99,9% allrar okkar raforku framleidd úr innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum auk þess sem 90% heimila í landinu njóta aðgangs að jarðhitaveitu. Víðast hvar í Evrópu gegna gas, olía og kol lykilhlutverkum í þessum efnum. Engu að síður er okkur hollt að fylgjast grannt með þeirri þróun sem á sér stað erlendis t.d. á sviði bættrar orkunýtingar. Þá eru okkur mikilvægar allar framfarir sem snúa að orkunýtingu samgöngutækja eða framförum á borð við þróun á öflugri rafhlöðum í bifreiðar. Við gætum jú fyllt tankinn með grænni raforku. Loks hafa íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fleiri aðilar upp á mikla þekkingu að bjóða í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og tækifærin því mikil á þessu sviði.