Enn af rafsegulsviði

Í Bændablaðinu sem út kom 14. maí s.l. er grein um fósturdauða í ám og gemlingum, eftir Gunnar Björnsson bónda og fósturtalningamann í Sandfellshaga í Öxarfirði. Greinin fjallar á greinagóðan hátt um þetta mikla vandamál íslensks sauðfjárbúskapar og er athyglisverð.

Eftir afar fróðlega lýsingu á  fósturtalningu og fósturdauða er í greininni grafist fyrir um ástæður vandans.  Þar er komist að þeirri niðurstöðu að orsakanna sé helst að leita hjá framleiðendum rafmagns og dreifiveitum. Í umfjölluninni um rafmagnið í greininni er farið slíkum orðum um þennan meinta orsakavald, að fullkominni rýrð er kastað á trúverðuleika greinarinnar í heild og er það miður. Skilja má greinina svo að rafmagnið sé stórkostlega gölluð vara og að þeir sem beri ábyrgð á framleiðslu rafmagnsins, dreifingu, flutningi og sölu þess séu lítt viðræðuhæfir um gæði þessarar vöru. Þá er einnig lítið gert úr starfssemi þeirra eftirlitsstofnana ríkisins sem fylgjast eiga með gæðum og afhendingaröryggi rafmagnsins og fullyrt að þessir aðilar hafi ekki þann mælabúnað sem til þurfi til að fylgja málum eftir. Síðan er vitnað í hóp góðviljaðra manna sem reki fyrirtæki á þessu hátæknisviði og veiti þá þjónustu sem dugi, enda ráði þeir einir yfir mælitækjum sem dugi. Undirritaður leyfir sér ekki að gera lítið úr þekkingu téðra manna eða hæfileikum þeirra á þessu sviði, en fullyrðir þó að hjá veitufyrirtækjunum eru líka menn með þekkingu á sviði jarðtenginga, menn með reynslu og metnað til að  leggja sig fram við að vinna störf sín samkvæmt þeim reglum og þeim stöðlum sem í gildi eru hér á landi og eru þær sömu reglur sem gilda í okkar heimshluta.

Það er markmið með jarðtengingum neysluveitna að koma í veg fyrir slys og eignatjón. Þessu markmiði ná veiturnar með því að ganga frá jarðtengingum samkvæmt þeim ströngu reglum sem um slíkt gilda. Vissulega má lengi auka og bæta við jarðtengingar, þ.e. að ganga lengra en kröfur eru gerðar um. Þegar slíkt er gert, þá er mikilvægt að það sé gert af kunnáttumönnum og þess gætt sérstaklega að ekki sé hróflað við grundvallartengingum veitukerfanna, sem eru eins og áður segir til að verjast slysum og tjóni og eru framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum vísindum. Umfjöllunin um rafsegulsviðið og þá hugsanlega hættu af völdum þess hefur á stundum farið fram á öðrum nótum en gengur og gerist um raunvísindi almennt. Sumsstaðar ræða menn um „rafmengun“ eins og í umræddri blaðagrein í Bændablaðinu, í öðrum skrifum og skýrslum hafa sést orðin rafskítur eða óþverri. Svona umfjöllun er ekki mjög trúverðug og rétt að taka fram að í umfjöllun um málefni sem fjalla um orsakir sjúkdóma manna og dýra, jafnvel líf eða dauða þeirra, þá er mikilvægt að ganga fram með hógværð og fullyrða ekki meira en hægt er að standa undir. Það er þekkt og eðlilegt að þeir sem berjast við erfiða sjúkdóma eru tilbúnir til að ganga langt í aðgerðum til að verja sig og sína við slíkar aðstæður. Því er það mikilvægt að þeir sem veita þjónustu og ráðgjöf á slíkum sviðum starfi samkvæmt bestu þekkingu hvers tíma. Þeir sem fara aðrar leiðir, leiðir sem flokkast undir tilraunastarfssemi eða ný vísindi, þurfa að gera viðkomandi aðilum glögga grein fyrir takmörkunum sínum og varast að kasta rýrð á þá  sem halda sig við hinar viðurkenndu aðferðir.

Hér eru hlekkir inn á aðrar greinar sem Samorka hefur áður birt á heimasíðu sinni:

Gtrein Sigurðar Guðmundssonar landlæknis.

Grein Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings

Grein í Morgunblaðinu eftir Sigurð Sigurðsson dýralækni, um lambadauða.

Grein í mbl. 15/6 2009 um niðurstöður rannsókna Sigurðar dýralæknis