4. apríl 2018 Eiríkur Bogason jarðsunginn á morgun Eiríkur Bogason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samorku, lést föstudaginn 23. mars síðastliðinn, 71 árs að aldri. Eiríkur lætur eftir sig eiginkonu, Guðbjörgu Ólafsdóttur, og tvö uppkomin börn. Eiríkur verður jarðsunginn fimmtudaginn 5. apríl kl. 13 frá Fossvogskirkju. Eiríkur fæddist í Vestmannaeyjum þann 24. janúar árið 1947. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1967 og síðar námi í rafmagnstæknifræði frá Árósaháskóla í Danmörku árið 1984. Eiríkur starfaði sem veitustjóri Bæjarveitna Vestmannaeyja á árunum 1985 til 1995 og leiddi þar sameiningu vatns-, hita- og rafveitu bæjarins. Hóf hann síðan störf sem framkvæmdastjóri Samorku við stofnun samtakanna og starfaði þar uns hann lét af störfum sökum veikinda árið 2013. Samhliða störfum sínum gegndi Eiríkur ýmsum félags- og stjórnunarstöðum og sat í nefndum og ráðum á sviði orkumála og menntunar í tæknigreinum. Börn Eiríks eru þau Soffía Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði, og Karl Eiríksson, viðskiptastjóri hjá Samskipum.