CRI hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024

Carbon Recycling International, eða CRI, hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin á opnum fundi Samorku í dag.  Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi CRI úr hópi átta tilnefninga til verðlaunanna.

Kristjana M. Kristjánsdóttir hjá CRI tekur við verðlaununum úr höndum ráðherra.

CRI hefur verið leiðandi í nýsköpun á orkusviði frá árinu 2006 með þróun nýrrar tækni, Emissions-to-Liquids (ETL), sem breytir koltvísýringi úr iðnaði og vetni í raf-metanól. Þetta eldsneyti er sérstaklega mikilvægt fyrir orkuskipti í skipum og flugvélum, þar sem ekki er hægt að nýta rafmagn með beinum hætti, og minnar þannig losun gróðurhúsalofttegunda. CRI var fyrsta fyrirtækið í heimi til að selja rafeldsneyti með sjálfbærnivottun og fyrsta fyrirtækið til að framleiða og afhenda rafmetanól til notkunar sem skipaeldsneyti árið 2021.

CRI hefur þegar sannað gildi tækni sinnar á alþjóðavísu í verksmiðjum samstarfsaðila, þar sem endurvinnsla CO₂ nemur nú um 310,000 tonnum árlega, sem mun aukast í 565,000 tonn með nýjustu verksmiðjunni, sem er hluti af stærsta rafeldsneytisverkefni á heimsvísu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Með því að bjóða lausnir sem stuðla að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, er CRI leiðandi í að umbreyta áskorunum samtímans í verðmætasköpun. Fyrirtækið er verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2024 fyrir framúrskarandi árangur í nýtingu auðlinda og stuðning við sjálfbærni í orku- og veitugeiranum.“

Frá vinstri: Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ómar Sigurbjörnsson, Kristjana M. Kristjánsdóttir og Gunndís Eva Reykdal Baldursdóttir frá CRI og Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku.

Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs CRI: „Við erum ákaflega stolt og glöð yfir því að hafa hlotið Nýsköpunarverðlaun Samorku í ár. Verðlaunin eru ekki aðeins viðurkenning fyrir CRI heldur veita þau vonandi innblástur fyrir önnur fyrirtæki og einstaklinga til að leggja í nýsköpun og þróa lausnir sem skipta máli, bæði heima og erlendis.”

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku: „Öflug nýsköpun er lykilatriði í þeim áskorunum og verkefnum sem blasa við okkur og heiminum öllum þegar skipta á út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Án nýsköpunar munu markmið um orkuskipti og aukna sjálfbærni ekki nást. Þá er einnig mikilvægt að fólk mennti sig til starfa í orku- og veitustarfsemi og hæft, hugvitssamt fólk sjái orku- og veitugeirann sem spennandi starfsvettvang.“

Með Nýsköpunarverðlaununum vill Samorka vekja athygli á íslensku hugviti og framúrskarandi starfi sem unnið er í orku- og veitutengdri starfsemi hér á landi sem getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Hér er hægt að horfa á Nýsköpunarfundinn í heild sinni.