Jafnvægi í rekstri Landsnets

Hagnaður Landsnets nam tæpum þremur milljörðum króna á árinu 2017  og er það mikill viðsnúningur frá árinu áður, þegar um 1,4 milljarða tap var á rekstrinum.

Þetta kemur fram í ársreikningi Landsnets fyrir árið 2017 sem samþykktur var í dag.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir ánægjulegt að reksturinn sé í takt við áætlanir og nú stöðugur í stað mikilla sveiflna áður. Þakkar hann helst endurfjármögnun langtímalána á hagstæðum kjörum, færslu yfir í bandaríkjadali ásamt endurbótum á ferlum fyrir það jafnvægi í rekstri sem vænst var til. Áhætta félagsins vegna gjaldmiðla hefur minnkað töluvert og eru áhrif af styrkingu krónunnar ekki mikil í rekstrinum. 2017 var eitt af stærstu framkvæmdaárum fyrirtækisins og var framkvæmdakostnaðurinn að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir miklar tafir í stórum verkefnum , segir Guðmundur Ingi jafnframt í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Hægt er að kynna sér ársreikninginn og frekari stiklur á helstu atriðum hans á heimasíðu Landsnets.

Hlöðum fjölgar hratt – tvær opnaðar á Austurlandi

Nýja hlaðan í Freysnesi

Orka náttúrunnar  hefur tekið tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur í notkun, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla.

Að auki segir Bjarni Már Júlísson, framkvæmdastjóri ON, segir undirbúning vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði langt kominn og á næsta ári verði hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð.

Nú í desember hafa fjórar hlöður bæst við þetta net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Markmið orkufyrirtækisins er að ýta undir og flýta orkuskiptum í samgöngum sem eru í senn umhverfisvænar og hagkvæmar. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í gær, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum.

Samstarfsaðilar ON í uppbyggingu þessa mikilvægu innviða eru N1 og Skeljungur, auk þess sem ON hefur notið fjárstyrks úr Orkusjóði.

Landsnet framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins

Sigrún Björk, stjórnarformaður Landsnets, tekur við verðlaununum frá Rögnu Söru Jónsdóttur formanni dómnefndar.

Landsnet hreppti í dag verðlaun fyrir Framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir Snjallnet á Austurlandi og veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins verðlaunum móttöku.

Verkefni Landsnets felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, kallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur. Þar má nefnda aukna flutningsgetu upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla. Einnig er sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum.

Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar afhendir Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur frkvstj. Icelandair hótela Umhverfisverðlaun atvinnulífsins

 

Icelandair Hotels var valið Umhverfisfyrirtæki ársins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Icelandair Hotels hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi, sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hafi náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun.

Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Halarófa rafbíla við upphaf hringferðar

Bílar frá Samorku og aðildarfélögum tóku þátt í halarófu rafbíla sem fylgdi tveimur Englendingum úr hlaði við upphaf hringferðar um Ísland í dag.

Bíll Samorku

Englendingarnir tveir, Mark og Stewart ásamt móður annars þeirra á níræðisaldri, keyra hringinn á óbreyttum rafbílum og engar vararafhlöður verða með í för. Þannig vilja þeir sýna fram á að rafbílar eru raunhæfur valkostur og óþarfi sé að óttast það að komast ekki á leiðarenda, sem er talin ein helsta fyrirstaða þess að fólk kaupi sér rafbíl.

Mark og Stewart hafa áður keyrt hringinn um Bretland á rafbíl og ætla sér næst um miðbaug.

 

Hringferðin er hluti af CHARGE energy branding ráðstefnunni sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október.

Orka náttúrunnar tilnefnd sem besta græna vörumerkið

Orka náttúrunnar er tilnefnd til alþjóðlegu CHARGE vörumerkjaverðlaunanna sem besta vörumerkið í flokki grænnar orku. ON er eina íslenska fyrirtækið sem tilnefnt er í flokknum og keppir þar við fjögur erlend vörumerki. Besta vörumerkið að mati fjölmennrar alþjóðlegrar dómnefndar verður útnefnt 10. október næstkomandi.

Orka náttúrunnar hefur vakið athygli fyrir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hefur fjöldi þeirra margfaldast eftir að fyrirtækið setti á laggirnar hraðhleðslustöðvar víðs vegar um Reykjavík og landið allt.

Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON, segir alla afar stolta af tilnefningunni. „Þarna eru margir kallaðir en fáir útvaldir og það er frábært að fá hvatningu af þessu tagi í þeim mikilvægu verkefnum sem ON vinnur að. Við höfum hvatt eindregið til rafbílavæðingar hér á landi – bæði í orði og í verki – og vörumerki ON er orðið óaðskiljanlegt þeirri þróun. Rafbílabyltingin getur orðið eftirmynd hitaveitubyltingarinnar sem var góð fyrir umhverfið, góð fyrir veskið og góð fyrir orkusjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir það vill ON standa og tilnefningin gefur til kynna að við séum á réttri braut“, segir Áslaug Thelma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Vörumerkjaverðlaun CHARGE verða afhent á samnefndri ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október.

Orka náttúrunnar varð til í ársbyrjun 2014 eftir lögbundna aðgreiningu sérleyfis- og samkeppnisþátta í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. ON rekur þrjár virkjanir, selur rafmagn til um helmings landsmanna og aflar um helmings heita vatnsins í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.

Þjóðhagslegur ávinningur af rafbílavæðingu greindur

    Frá undirritun samningsins í húsakynnum Samorku í dag. Frá vinstri: Erla Sigríður Gestsdóttir frá ANR, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Brynhildur Davíðsdóttir frá HÍ, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson frá HR, og Jón Björn Skúlason frá Íslenskri NýOrku og Grænu Orkunni. Á myndina vantar Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusetri.

Samorka, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Græna Orkan, Íslensk NýOrka og Orkusetur hafa gengið til samstarfs við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um gerð skýrslu um þjóðhagslegan ávinning af rafbílavæðingu á Íslandi. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Samorku í dag.

Markmiðið með skýrslunni er að fá góða yfirsýn yfir þann margþætta ávinning sem rafbílavæðing í samgöngum hefur fyrir íslenskt samfélag og gera niðurstöðurnar aðgengilegar svo þær nýtist sem flestum í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á þróun orkuskipta í samgöngum á Íslandi.

Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar verði mikilvægt innlegg í umræðu um loftslagsmál á Íslandi og því brýna verkefni að nýta innlenda, umhverfisvæna orkugjafa í samgöngum innanlands.

Vinna við skýrsluna hefst á næstu dögum. Lokaniðurstöðum skal skilað eigi en 15. febrúar og verða þær kynntar í framhaldinu.

Samorka gat komið að fjármögnun skýrslunnar með myndarlegri aðkomu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkusölunnar og Veitna.

Fulltrúar frá aðildarfyrirtækjum Samorku ásamt þeim sem standa að skýrslunni. Á myndina vantar fulltrúa frá ON og Veitum.

Sólar- og vindorka framtíðin í rafmagnsframleiðslu í heiminum

Næstum helmingur raforkuframleiðslu heimsins mun koma frá sólar- og vindorku árið 2040 skv. árlegri skýrslu Bloomberg um horfur á orkumarkaði, sem kom út á dögunum. Í dag er hlutfallið um 12%.

Til þess að þetta geti gengið eftir þarf að þrefalda fjárfestingu í þróun á vinnslu rafmagns úr endurnýjanlegum orkugjöfum miðað við úr jarðefnaeldsneyti, svo sem úr jarðhita, vatnsafli, sól og vindi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að um 72% af allri fjárfestingu í nýjum orkukerfum um allan heim til ársins 2040 fari í sólar- og vindorkulausnir.

Bloomberg gerir einnig ráð fyrir að árið 2040 fáist rúmlega tvöfalt meiri orka en í dag fyrir hvern dollara sem fjárfest er í sólar- og vindorku og að þessir orkugjafar hafi rutt kolum úr vegi árið 2030. Þá er því spáð að aðeins einn þriðji af þeim kolaorkuverum, sem stefnt er að að byggja í dag, verði að veruleika. Með skýru og góðu regluverki, sérstaklega í evrópsku samhengi, gæti þetta gerst enn fyrr.

Vindorka verður sífellt ódýrari, þökk sé mikilli þróun í tækni og rekstrarumhverfi þeirra og búist er því að framleiðslukostnaður rafmagns úr vindorku verði um 47% lægri árið 2040 en nú. Aflandsvindorka (offshore wind) mun lækka enn meir, eða um að minnsta kosti 70%. Þessi mikli verðmunur skýrist af einnig af tækninýjungum, aukinni samkeppni og meiri framleiðslu miðað við daginn í dag.

Skýrslan staðfestir það sem hefur verið á sjóndeildarhringnum lengi; að endurnýjanleg orka sé ekki lengur óálitlegur kostur, heldur hreinlega nauðsynlegur og arðbær fyrir fjárfesta.

Hægt er að nálgast skýrslu Bloomberg á heimasíðu þeirra.

Blöndustöð skarar fram úr í sjálfbærni

Starfsfólk Landsvirkjunar með Blue Planet verðlaunin

Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu og eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun.

Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Í úttektinni voru 17 flokkar teknir til nákvæmrar skoðunar og varða rekstur Blöndustöðvar, til dæmis samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Samið um lagningu jarðstrengs

Í dag var skrifað undir samning við Steypustöð Skagafjarðar um lagningu jarðstrengs á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur með viðeigandi greftri, slóðagerð og frágangsvinnu, Grundarfjarðarlínu 2.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnet segir að með lagningu Grundarfjarðarlínu 2, 66 kV jarðstrengs milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar og byggingu nýrra tengivirkja aukist afhendingaröryggi raforku á svæðinu til muna.

Vinna við undirbúning, hönnun, útboð og jarðvinnuframkvæmdir vegna byggingar tengivirkis í Grundarfirði hófst árið 2015. Framkvæmdir við Grundarfjarðartengivirki hófust árið 2016, einnig vinna við hönnun nýs tengivirkis í Ólafsvík og gengið var frá innkaupum á jarðstreng. Vinna við strenginn hefst á næstu vikum og er stefnt að því að framkvæmdum verið að fullu lokið, með yfirborðsfrágangi sumarið 2018.

Sólarlampaverkefnið formlega sett í gang

Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.

Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.

Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.

Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.

Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.