Dreifing sólarorkulampa heldur áfram

 

Í dag, 23. janúar, er degi rafmagnsins fagnað á Norðurlöndunum.

Rafmagn er sjálfsagt og aðgengilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga, svo það er auðvelt að gleyma því að um það bil 1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að því í heiminum.

Í tilefni af degi rafmagnsins hefur Samorku tvö ár í röð staðið fyrir fjármögnun og dreifingu sólarorkulampa í Afríku í samvinnu við sænska fyrirtækið Givewatts. Markmið Givewatts er að gefa fjölskyldum í Kenýa og Tansaníu kost á því að fjárfesta í hreinni og ódýrri orku í formi sólarorkulampa í stað steinolíulampa við leik og störf.

Samorka hefur nú fjármagnað alls 320 lampa, sem munu bæta lífsgæði um 1.600 manns, þar sem að meðaltali nýta fimm einstaklingar sér hvern lampa á hverju heimili.

Hér má sjá nýtt myndband frá Givewatts um áhrif sólarorkulampa á fjölskyldulífið á svæðum þar sem aðgengi að lýsingu á heimili er takmarkað.

Impact: Family time from GIVEWATTS on Vimeo.

 

Starfsmaður Givewatts heimsækir skóla í Vihiga

Lamparnir frá Samorku eru í dreifingu í þorpinu Vihiga í Kenýa og Mwanza í Tansaníu. Eins og sjá má hefur dreifing lampanna gengið hægar en vonast var eftir, þar sem efnahagsástandið á svæðunum var ekki gott á síðari hluta ársins 2018 vegna slæmrar uppskeru, en vonast er til þess að hún taki kipp á nýju ári. Givewatts hefur ráðið í stöðu sölustjóra og almennan starfsmann yfir Vihiga svæðinu í Kenýa, sem er nýtt svæði hjá þeim. Þá eru fleiri starfsmenn í þjálfun og fræðslu, svo hægt sé að efla kynningu á lömpunum og kostum endurnýjanlegrar orku í stað steinolíulampa. Þannig er vonast til að dreifing lampanna komist á skrið að nýju.

 

 

Hér má lesa frekari upplýsingar um fjármögnun lampanna á degi rafmagnsins 2017 og 2018. 

Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets

Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 og felur samþykkið í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

„Samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun 2018-2027 er mikilvægur áfangi í því verkefni sem framundan er í uppbyggingu raforkuinnviða landsins. Með uppbyggingunni verður flutningskerfið betur í stakk búið til að mæta framtíðaráskorunum þar sem verkefnin eru fjölmörg víðsvegar um landið“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.

Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

Landsnet skal árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem felur í sér tvo megin þætti:

• Langtímaáætlun sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum.

• Framkvæmdaáætlun sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum.

Nánar á vef Orkustofnunar.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Rafmagn til gagnavers á Blönduósi

Björn Brynjúlfsson framvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis og Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ON undirrita samninginn

ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum.

Fremst eru Björn Brynjúlfsson og Berglind Rán Ólafsdóttir. Aftari röð f.v. Elín Smáradóttir, Hjálmar Helgi Rögnvaldsson, Antoine Gaury, Þrándur Sigurjón Ólafsson og Jakob Sigurður Friðriksson

Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og vex hratt, en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere að Borealis hefur uppbygging aukist til muna.

Eitt af samkeppnisforskotum gagnavera á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar á borð við jarðvarma og kalt veðurfar sem hentar vel til kælingar. Erlendir viðskiptavinir horfa í auknum mæli á þessa þætti.

Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi

Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið

Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun.

 

F.v. Auður Nanna Baldvinsdóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ON, Brynhildur Davíðsdóttir, einn skýrsluhöfunda, Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur á skrifstofu efnahagsmála, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson einn skýrsluhöfunda og Hlynur Stefánsson, einn skýrsluhöfunda taka við spurningum á fundinum í morgun

 

Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust.

Nið­ur­stöður sýna að hlut­fall hreinna raf­magns­bif­reiða (BEV: batt­ery-el­ect­ric vehicle) og tengilt­vinn­bif­reiða (PHEV: plug-in-hy­brid elect­ric vehicle) af bíla­flot­anum mun aukast á næstu ár­um. Hversu mikil aukn­ingin verður er mjög háð ákvörð­unum stjórn­valda og aðstæðum á mark­að, sam­kvæmt skýrsl­unni. Áhrif á afkomu ríkis­sjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða not­aðar til að hafa áhrif á orku­skipti í sam­göng­um. Til skemmri tíma fylgir raf­bíla­væð­ingu kostn­að­ur, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostn­aður lend­ir.

Fullt var út úr dyrum á kynningunni.

Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir.

Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB)

Hér má sjá upptöku af fundinum:

Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar

Niðurstöður nýrrar greiningar um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar verða kynntar á opnum fundi í Norræna húsinu fimmtudaginn 1. nóvember.

HR og HÍ hafa unnið að verkefninu fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna og Íslenska Nýorku, og hafa smíðað líkan sem metur áhrif af beitingu mismunandi hagrænna hvata stjórnvalda, s.s. ívilnunum, sköttum og gjöldum.

Hvaða aðgerðir eru hagkvæmastar til að flýta fyrir rafbílavæðingu og hvaða árangri skila þær? Getur rafvæðing bílaflotans verið efnahagslega hagkvæm?

Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg til að meta næstu skref í orkuskiptum í samgöngum.

Skráning á fundinn fer fram á viðburðasíðu Samorku þar sem einnig er hægt að sjá ítarlegri dagskrá. Í fyrramálið verður einnig hægt að horfa á streymi frá fundinum.

Orkuveita Reykjavíkur fær 2 milljarða styrk

Hellisheiðarvirkjun

Orkuveita Reykjavíkur (OR) ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita. OR leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu.

Markmið GECO (Geothermal Emission Control) er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S) byggða á CarbFix verkefninu sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun.

Gróðurhúsalofti breytt í grjót

CarbFix-aðferðin, stundum nefnd Gas í grjót, felst í að leysa koltvíoxíð og brennisteinsvetni upp í vatni og dæla þeim djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninum til frambúðar. Þessi aðferð er ódýrari en hefðbundnar hreinsunaraðferðir á þessu jarðhitalofti og leiðir til langtímabindingar þess.

Með GECO verkefninu verður CarbFix aðferðin þróuð enn frekar og henni beitt víðar. Auk Íslands verður hún prófuð á Ítalíu, í Tyrklandi og í Þýskalandi.

Þá verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna.

Ný íslensk rannsókn um hleðslu rafbíla

Tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla hefur verið boðin þátttaka í rannsókn, sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum hér á landi.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir rannsókninni sem stendur yfir í 12 mánuði og er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Markmið hennar er að afla upplýsinga um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku

„Raungögn um hleðsluhegðun eru nauðsynleg til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðarnotkun, álagspunkta og stuðla að því að orku- og veitufyrirtæki verði í stakk búin til þess að mæta orkuskiptunum“, segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. „Og auðvitað til að veita rafbílaeigendum áfram góða þjónustu“.

Raf- og tengiltvinnbílarnir í rannsókninni eru af mismunandi tegundum, ýmist í eigu einstaklinga eða fyrirtækja, eru staðsettir á mismunandi svæðum á landinu og eru hlaðnir ýmist við einbýli, fjölbýli eða vinnustað. Með þessum hætti fást niðurstöður um hvort þarfir þessara hópa séu ólíkar og kröfur til uppbyggingar innviða þar með.

Hlutfall raf- og tengiltvinnbíla af nýskráðum bílum er næsthæst hér á Norðurlöndunum, enda sjá fleiri og fleiri sér hag í því að spara bensínkaup og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá á uppbygging hleðslustöðva um landið síðustu árin eflaust stóran þátt í því að rafbílar eru orðinn raunhæfur kostur í samgöngum.

Páll segir þessa uppbyggingu hafa verið leidda af orku- og veitufyrirtækjum landsins og rannsóknin sé næsta skref í því verkefni. „Orku- og veitufyrirtæki vilja áfram vera í fararbroddi þegar kemur að þessu mikilvæga samfélagslega verkefni; að skipta út olíunni á bílunum okkar yfir í græna, hagkvæma orkugjafa“.

Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á www.samorka.is/hledslurannsokn

Öll meðferð persónuupplýsinga í rannsókninni er í samræmi við persónuverndarlög og verður ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda.

Þriðji orkupakki ESB – grein eftir Rögnu Árnadóttur

Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ritaði grein í vefútgáfu Úlfljóts, tímarits lögfræðinema, um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Í greininni fer Ragna ítarlega yfir aðdragandann að pakkanum, markmiðið með honum og áhrif innleiðingar á Íslandi.

Hún segir hann rökrétt framhald af fyrri tveimur orkupökkum ESB, þar sem lögð var áhersla á innri markað til að auka samkeppni og tækifæri til fjárfestinga. Sá þriðji innihaldi þó nýmæli sem lúti að auknu eftirliti með rafmagnsmörkuðum og samhæfingu þess.

Greinina má lesa á heimasíðu Úlfljóts.

Raforkuspár og sviðsmyndir um raforkunotkun

Raforkuhópur orkuspárnefndar mun kynna vinnu við gerð raforkuspáa og sviðsmynda um
raforkunotkun miðvikudaginn 23. maí kl. 08:15 – 10:00 á veitingastaðnum Nauthóli.
Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 08:15 – 08:45.

Raforkuspá er mikilvæg forsenda fyrir framkvæmdum í raforkukerfinu og óskar orkuspárnefnd eftir ábendingum og athugasemdum við raforkuspá og sviðsmyndir um raforkunotkun sem geta nýst við frekari þróun þessarar vinnu. Fundurinn er opinn öllum.

Orkuspárnefnd er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaðinum hér á landi auk Hagstofu Íslands og Þjóðskrár. Raforkuhópur orkuspárnefndar vinnur að gerð raforkuspáa sem gefnar eru út á um fimm ára fresti auk þess sem spárnar eru endurreiknaðar árlega út frá nýjum gögnum um orkunotkun og þróun þjóðfélagsins.