Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum

Tekin hafa verið í notkun ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Þessar framkvæmdir og nýjungar hafa í för með sér að svonefndur straumleysistími styttist til muna og raforkuöryggi Vestfjarða eflist. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu er þó enn talin forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar. Sjá nánar á vef Landsnets.

Framkvæmdir hefjast við Þeistareykjavirkjun

Landsvirkjun hefur undirritað samning við verktaka um byggingu stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar og veitna. Gert er ráð fyrir 45 MW virkjunaráfanga í fyrsta skrefi varfærinnar uppbyggingar á sjálfbærri jarðvarmavinnslu á svæðinu. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljörðum króna, en þegar mest verður á framkvæmdatímabilinu munu hátt í 200 starfsmenn verða við vinnu á svæðinu. Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.