Þættirnir Orka Landsins á N4

Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.

Virkjun sjávarorku verði hagkvæm um eða eftir miðja öldina

Gróft reiknað er kostnaður við virkjun sjávarorku nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun. Mikil framþróun er hins vegar í rannsóknum á beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir á þessu sviði. Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku mun fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka. Má því reikna með að virkjun sjávarorku geti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina. Þetta eru helstu niðurstöður greinargerðar sem sérfræðingahópur hefur skilað til atvinnuvegaráðuneytisins. Sjá nánar á vef ráðuneytisins.

Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum

Tekin hafa verið í notkun ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Þessar framkvæmdir og nýjungar hafa í för með sér að svonefndur straumleysistími styttist til muna og raforkuöryggi Vestfjarða eflist. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu er þó enn talin forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar. Sjá nánar á vef Landsnets.

Framkvæmdir hefjast við Þeistareykjavirkjun

Landsvirkjun hefur undirritað samning við verktaka um byggingu stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar og veitna. Gert er ráð fyrir 45 MW virkjunaráfanga í fyrsta skrefi varfærinnar uppbyggingar á sjálfbærri jarðvarmavinnslu á svæðinu. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljörðum króna, en þegar mest verður á framkvæmdatímabilinu munu hátt í 200 starfsmenn verða við vinnu á svæðinu. Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.