22. desember 2019 Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra Grein eftir Ingvar Frey Ingvarsson, hagfræðing Samorku: Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra Árangur af Parísarsamningnum er fyrst og fremst háður þeim aðgerðum sem aðildarríki hans grípa til í því skyni að standa við skuldbindingar sínar. Ljóst er að áætlanir ríkjanna þurfa að vera metnaðarfullar og aðgerðirnar skjótvirkar. Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það afar metnaðarfulla markmið að Ísland verði í fararbroddi á sviði loftslagsmála. Ein af megináherslum stjórnvalda að undanförnu er hröð orkuskipti í samgöngum, þar sem m.a. er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 10% árið 2020 og 40% árið 2030. Til að þau geti orðið að veruleika á æskilegum hraða er nauðsynlegt að tryggja gott samstarf hins opinbera, fyrirtækja og almennings í landinu. Rafvæðing samgöngukerfisins yrði þriðju umfangsmiklu orkuskiptin sem Íslendingar ganga í gegnum. Fyrri orkuskipti tengdust rafvæðingu húsa, heimila og atvinnustarfsemi með hagnýtingu vatnsaflsins og síðar þegar jarðhiti leysti kol, olíu og aðra kolefnisbundna orkugjafa sem aðalform húshitunar. Árið 1973 var Ísland komið hálfa leið að hita heimili lands með jarðhita. Þá nutu um 43% þjóðarinnar (80–90 þúsund manns) hitunar með jarðhita. Hlutdeild olíuhitunar var ríflega 50% af hituninni en rafhitun þjónaði hinum. Þetta sama ár hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu um 70% á stuttum tíma þegar olíukreppan skall á. Til að draga úr áhrifum olíuverðshækkana á rekstur heimila hóf ríkisvaldið að greiða þeim sem notuðu olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis svokallaða olíustyrki. Á sama tíma var einnig mótuð orkustefna þar sem áhersla var lögð á að draga úr innflutningi á olíu en auka þess í stað hlutdeild innlendra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma. Stefnan kom m.a. fram í átaki í jarðhitaleit og byggingu nýrra hitaveitna víða um land. Þjóðhagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar í stað olíu er gríðarlega mikill og á sinn þátt í þeirri velmegun sem ríkir í landinu. Efnahagslegur ávinningur Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu til húshitunar árið 2018 var 91,5 milljarðar eða 3,5% af landsframleiðslu, skv. nýútgefnum tölum Orkustofnunar. Efnahagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar er ótvíræður en jákvæð áhrif í umhverfislegu tilliti eru jafnframt umtalsverð. Bæði jarðhiti og vatnsorka teljast til endurnýjanlegra orkugjafa, andstætt jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi sem eru óendurnýjanlegar eða takmarkaðar auðlindir. Þá telur Orkustofnun að með notkun endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og framleiðslu rafmagns komumst við hjá því að losa um 20 milljónir tonna af CO2 árið 2018 miðað við að nota jarðefnaeldsneyti. Til samanburðar þurfum við að minnka útblástur um 1 milljón tonna CO2 fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í þessu samhengi má einnig benda á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2017 nam tæplega 4,8 milljónum tonna CO2 ígilda (án losunar frá LULUCF ) skv. Losunarbókhaldi Íslands 2019. Orku- og veitufyrirtæki, í samstarfi við sveitarfélög og stjórnvöld hafa hingað til leitt orkuskipti á Íslandi og þau verða áfram leiðandi nú þegar þriðju orkuskiptin blasa við. Orkan sem heimili og fyrirtæki nota á Íslandi er framleidd með umhverfisvænum hætti og þar erum við í fararbroddi á heimsvísu. Þrátt fyrir að hafa náð miklum árangri í að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orku eru Íslendingar enn í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins. Mikilvægt er að nýta það tækifæri en svara þarf þeirri spurningu hvaðan sú orka eigi að koma. Rafbílavæðingin er raunhæfur og nærtækur kostur þegar að markmiðum Parísarsamkomulagsins kemur. Í skýrslu um Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar sem unnin var af Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík kemur fram greining á áhrifum þess að umbreyta bílaflota landsmanna yfir í hreinorkubifreiðar, en þar kemur meðal annars fram að til þess þarf bæði umfangsmiklar aðgerðir og kerfislegar breytingar, t.d. í formi greiðslna fyrir úreldingu eldri mengandi bifreiða, eflingu almenningssamgangna og aðgerða sem stuðla að breyttum ferðavenjum. Til lengri tíma litið er aukin hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa (rafmagn, metan, vetni o.fl.) afar mikilvæg í baráttu við lofslagsvandann, en þar mun rafbílavæðing skipta miklu í efnahagslegu tilliti og hagkvæmni fyrir þjóðina. Því til viðbótar skila orkuskipti í samgöngum í heild umtalsverðum árangri þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra efna. Líklegt er að rafbílavæðing hafi einnig önnur óbein jákvæð áhrif sem snerta aukið orkuöryggi. Ætla má að þau áhrif verði jákvæðari eftir því sem rafbílavæðing eykst. Þegar allir þessir þættir eru teknir saman er ljóst að áhrif rafbílavæðingar eru ótvírætt þjóðhagslega jákvæð, líkt og hitaveituvæðingin var á sínum tíma. Aukinn hlutur rafmagns í orkuskiptum, gerir einnig auknar kröfur um uppbyggingu orkuinnviða. Til þess að svo megi verða þurfa innviðir á sviði orkuflutnings að að vera nægjanlega öflugir til að standast óveður, aukinn raforkuflutning og aðgang að aukinni orku á sem flestum stöðum á landinu til að tryggja það öryggi. Við höfum reynslu af orkuskiptum og vitum að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Við sem þjóð ættum því að beita öllum tiltækum ráðum í að ýta undir hröð orkuskipti og ná þar með mikilvægum áfanga í skuldbindingum okkar samkvæmt Parísarsáttmálanum. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 19. desember 2019
14. desember 2019 Hlúum að innviðunum okkar Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku Hlúum að innviðunum okkar Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orkuinnviðirnir okkar eru mikilvægir heilsu, öryggi og lífsviðurværi fólks. Aftakaveður gekk yfir landið í vikunni og þrátt fyrir umfangsmikinn undirbúning og viðbúnað þeirra sem stuðla að öryggi og velferð landsmanna varð víðtækt og fordæmalaust rafmagnsleysi með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Starfsfólk veitufyrirtækjanna, ásamt björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og fleirum, hefur unnið sleitulaust að því undanfarna sólarhringa að koma rafmagni og hita aftur á í þeim landshlutum sem verst urðu úti. Aðstæður hafa verið erfiðar og reynt hefur á samstarf, þekkingarmiðlun og fagmennsku allra aðila sem að málinu hafa komið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, vill þakka starfsfólki veitufyrirtækjanna og öðrum viðbragðsaðilum sem hafa lagt sig fram við að koma samfélaginu í samt horf en því verkefni er hvergi nærri lokið, þar sem nokkurn tíma mun taka að gera að fullu við skemmdir af völdum veðurofsans. Góðir innviðir eru undirstaða samfélagsins. Við megum hins vegar aldrei taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Hlúa þarf að þeim; endurnýja þegar við á og styrkja þá, svo allir geti notið sömu lífsgæða og tækifæra og draga úr líkum á samsvarandi tjóni sem varð nú. Það þarf einnig að horfa til framtíðar þegar kemur að innviðauppbyggingu svo hægt verði að mæta þörfum samfélagsins í öllum landshlutum. Orku- og veitugeirinn byggir á öflugu starfsfólki, því kerfin okkar virka ekki bara af sjálfu sér. Að baki er vel menntað fagfólk sem vinnur að mikilvægum samfélagslegum verkefnum á hverjum degi. Enn og aftur minnir það okkur á hversu brýnt er að hlúa vel að iðn- og tæknimenntun í landinu, svo hægt verði um ókomna framtíð að sinna þessum grunnstoðum samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að til standi að stofna starfshóp um raforkuinnviði og fagnar Samorka því. Nú reynir á að orkuinnviðir fái þann framgang í skipulags- og leyfisveitingamálum sem til þarf svo þau standi að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að innviðirnir séu á hverjum tíma eins og best verður á kosið fyrir samfélagið. Aðsend grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku. Greinin birtist fyrst á frettabladid.is laugardaginn 14. desember.
2. desember 2019 Fráveitan er málið Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku. Fráveitan er málið Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismálið og snýr bæði að lýðheilsu og góðri umgengni við náttúruna. Á undanförnum áratugum hafa sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eigu lyft grettistaki í að bæta fráveitukerfi og fjölga skólphreinsistöðvum víða um land. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem búa við skólphreinsun úr 6% í 68%. Árið 2018 var hlutfallið komið í 79%, þegar uppbyggingu skólphreinsunar lauk á Akranesi og í Borgarnesi og hefur hlutfallið haldist nær óbreytt síðan. Þrátt fyrir úrbætur síðustu ára þarf enn gera betur í fráveitumálum víða. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þurfi ástand fráveitulagna, koma upp skólphreinsun og styrkja kerfin til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun til samræmis við núgildandi reglur um 20 milljarða. Stórar framkvæmdir í fráveitum eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög og er það steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Samorka hefur bent á að skoða þurfi aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts við slíkar framkvæmdir. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi, frá árinu 1995 til 2008. Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt til þess að styðja við úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig er starfshópur ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, og sveitarstjórnarmála að skoða mögulegar leiðir til frekari stuðnings við fráveituframkvæmdir. Samorka hvetur alþingismenn til að styðja við hið nýja frumvarp og aðrar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum um allt land. Verkefnið er brýnt og snýst um að koma hlutfallinu úr 79% í 100% – í þágu umhverfisins og allra landsmanna. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember 2019.
19. nóvember 2019 Upprunaábyrgðir: Lóð á loftslagsvogarskálar Aðsend grein í Morgunblaðið eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku: UPPRUNAÁBYRGÐIR: LÓÐ Á LOFTSLAGSVOGARSKÁLAR Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti. Þetta er staðreynd, sem þó skolast stundum til þegar uppgjör vegna upprunaábyrgða raforku, stundum kölluð græn skírteini, er birt einu sinni á ári. Því er rétt að skerpa aðeins á hvað upprunaábyrgðir eru, hver tilgangur þeirra sé og af hverju Ísland tekur þátt í kerfinu um þær. Hvað eru upprunaábyrgðir og hvernig virka þær? Upprunaábyrgðir raforku eru liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í Evrópu hefur verið gripið til ýmissa ráða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut endurnýjanlegrar orku. Til dæmis ívilnanir og skattlagning, langtíma tvíhliða samningar við raforkuframleiðendur og svo vottunarkerfi um uppruna raforku, eða upprunaábyrgðir. Með upprunaábyrgðum er græni þáttur framleiðslunnar gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð því hvort kaupandinn fái þetta tiltekna græna rafmagn í innstungurnar sínar. Það er til þess að hægt sé umbuna þeim sem framleiða græna orku óháð því hvar þeir eru staðsettir því það skiptir ekki máli í samhengi loftslagmála; það er sama hvaðan gott kemur. Fjárhagsleg umbun = arðbærari hrein orka Með því að beina fjármagninu til þeirra sem framleiða orku með endurnýjanlegum hætti verður sú orka arðbærari og getur frekar keppt við orku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, sem hingað til hefur verið ódýrari í framleiðslu. Raforkunotendur í Evrópu hafa kannski takmarkaðan aðgang að endurnýjanlegri orku í sínu heimalandi en geta þá stutt við framleiðslu á hreinni orku með því að borga aukalega í hverjum mánuði. Hér fara því saman hagsmunir græna raforkuframleiðandans og græna raforkukaupands. Sjái raforkunotandi ávinning í því að vísa í að hann noti rafmagn sem framleitt er á umhverfisvænan hátt getur hann vottað það með opinberum hætti með því að kaupa upprunaábyrgð. Rétt eins og með aðrar umhverfisvottanir þarf að greiða sérstaklega fyrir vottun á uppruna raforku. Engin kvöð er að kaupa slíka vottun; kerfið er valfrjálst fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Verðmæti orkunnar hámörkuð Hreinleiki orkunnar okkar eru verðmæti og auðlind út af fyrir sig. Kerfið um upprunaábyrgðir setur verðmiða á það. Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að hámarka verðmæti hreinu orkunnar sem hér er framleidd og það markmið næst betur með því að selja þær upprunaábyrgðir, sem ekki seljast hér á landi, á alþjóðlegum markaði. Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því. Fjárhagslegur ávinningur Íslands er töluverður í þessu kerfi. Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári. Árið 2018 voru hreinar tekjur af sölu íslenskra upprunaábyrgða í kringum 800 – 850 milljónir króna. Þar sem raforkuframleiðendur hér á landi eru að langstærstum hluta í eigu ríkisins hefur íslenskt samfélag beinan ávinning af sölu upprunaábyrgða og þessar umtalsverðu tekjur geta hjálpað til við að halda orkuverði hér lágu. Ávinningur fyrir íslensk fyrirtæki Upprunaábyrgðir fylgja með í raforkuverði til heimila á Íslandi og fyrirtækja á almennum markaði og ættu fleiri fyrirtæki að skoða hvers konar ávinning það gæti fært þeim á alþjóðlegum markaði. Vegna þátttöku okkar í kerfinu fá íslensk fyrirtæki aðgang að innlendum upprunavottunum, sem getur gefið samkeppnisforskot í heimi þar sem krafan um sjálfbæra virðiskeðju verður sífellt háværari. Fyrirtæki á Íslandi gætu ekki nýtt sér hreinleika orkunnar til að vekja athygli á sinni vöru nema með þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir, því vottunina þarf til. Ávinningur fyrir loftslagið Kerfið um upprunaábyrgðir hefur engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsað til þess að búa til auka fjármagn til þeirra sem framleiða endurnýjanlega orku. Þetta fjármagn getur skipt sköpum fyrir fjárfestingar í nýjum umhverfisvænum orkukostum og hjálpar því til við að koma fleiri slíkum á koppinn. Og það skilar árangri. Upprunaábyrgðir eiga þátt í því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í Evrópu fer hækkandi. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2019
23. janúar 2017 #sendustraum á degi rafmagnsins Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Hvernig væri lífið án rafmagns? Í nútíma samfélagi er svarið við þeirri spurningu líklega: Óhugsandi. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi. Langt skammdegið hefur engin áhrif á okkar daglega líf og við njótum þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr og um leið hrein, þar sem nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er með endurnýjanlegum hætti. Stór hluti mannkyns býr við allt annan veruleika. 1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að rafmagni. Steinolía er til dæmis aðalorkugjafi heimila í fjölmörgum löndum Afríku. Olían er dýr og gufurnar frá henni eru skaðlegar, sérstaklega börnum. Þrátt fyrir það eiga margar fjölskyldur ekki annan kost eftir að sólin er sest en birtu frá steinolíulampa til að geta athafnað sig við einföld heimilisstörf og börnin við heimanám. Dagur rafmagnsins hefur verið haldinn hátíðlegur þann 23. janúar á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið. Honum er ætlað að minna á að rafmagn er ekki sjálfgefið og að við gefum því stóra hlutverki sem það spilar í lífi okkar meiri gaum. Um leið er tilvalið að láta gott af sér leiða. Í tilefni af degi rafmagnsins ætlar SAMORKA, í samstarfi við sænsk-afríska félagið Givewatts, að hjálpa bæjarbúum í Kendu Bay í Kenýa að skipta yfir í endurnýjanlegan orkugjafa, líkt og þá sem við búum við hér á landi, í formi sólarorkulampa. Sólarorkulampinn gefur góða birtu fyrir heimili og skóla og hægt er að nota hann til að hlaða farsíma. Hann gefur kost á betri heilsu, hjálpar börnum að ná markmiðum sínum í námi og ýtir undir hraðari þróun samfélagsins. Að auki leggjum við okkar af mörkum í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum – margt smátt gerir eitt stórt. Taktu þátt í degi rafmagnsins með okkur. Sendu straum þangað sem þörfin er mest með því að deila mynd af gildi rafmagns í þínu daglega lífi á Facebook/Instagram og merktu hana #sendustraum. Fyrir hverja mynd sem berst leggur SAMORKA 300 kr. til verkefnisins. Markmiðið er að koma yfir 100 sólarorkulömpum til fjölskyldna í Kendu Bay. Til hamingju öll með dag rafmagnsins. (Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. janúar 2017)
2. maí 2016 Ísland án jarðhita? Ísland án jarðhita? Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Margfalt hærri reikningur fyrir húshitun. Engin snjóbræðsla í gangstéttum, gervigrasvöllum, eða bílastæðum. Engar knattspyrnuhallir. Miklu dýrara innlent grænmeti og/eða afar lítil innlend grænmetisframleiðsla. Fáar sundlaugar og litlar. Langar sturtuferðir mikill lúxus. Gluggar lítið opnaðir á veturna. Margfalt fleiri olíutankar. Margföld losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi. Um 700 manns frá 46 löndum sóttu nýafstaðna ráðstefnu jarðhitaklasans í Hörpu, þar sem sumt af framangreindu kom fram þegar fyrirlesarar reyndu að sjá fyrir sér Ísland án nýtingar jarðhitaauðlindarinnar. Ljóst er að lífskjör væru hér mun lakari í hefðbundnum efnahagslegum skilningi. Hið sama má segja um ýmis lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð í dag. Einn Landsspítali á ári Saga jarðhitanýtingar til húshitunar nær yfir 100 ár hérlendis. Mikið átak var gert í uppbyggingu hitaveitna í kjölfar olíukreppunnar snemma á áttunda áratugnum, en þá var olía víða notuð við húshitun hérlendis. Samanburðurinn við olíu er þess vegna áhugaverður. Ef við værum almennt að nýta olíu til húshitunar í dag, í stað jarðhitans, þyrfti að flytja hér inn olíu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Það er vel ríflega nýr Landsspítali. Á hverju ári. Að auki værum við í stað grænnar orkunýtingar að losa gróðurhúsalofttegundir á við alla losun Kaupmannahafnar og helmingi betur. Milljón á ári per heimili Ef við horfum á tölurnar út frá beinum kostnaði hvers heimilis, að frádregnum dæmigerðum húshitunarkostnaði hérlendis, væri viðbótarkostnaðurinn um ein milljón króna á ári á dæmigert heimili. Milljón á ári. Tölurnar hér að framan miðast við þá forsendu að við værum að nýta jafn mikla orku með brennslu olíu og jarðhitinn skilar okkur í dag. Auðvitað er sú forsenda umdeilanleg. Við myndum áreiðanlega nota miklu minni orku, en þó gegn mun hærri kostnaði. Húsin væru ekki jafn hlý. Sturtuferðirnar styttri og jafnvel færri. Knattspyrnulandsliðin okkar ekki að ná sama árangri. Andrúmsloftið mengað af olíureyk. Og lífskjörin verri.
28. janúar 2016 Græna raforkan gullkista Norðurlandanna Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja á hinum Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóða orkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar. Að mati norrænu samtakanna er græna raforkan því sannkölluð gullkista Norðurlandanna og nauðsynlegt að efla flutningskerfin til að hægt sé að koma henni á markað, t.d. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Evrópusambandið hefur lengi haft stefnu um sameiginlegan markað með raforku en víðast hvar vantar töluvert uppá í þeim efnum. Norðurlöndin fjögur – Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland – hafa hins vegar verið þarna í fararbroddi með öflugum tengingum sín á milli og raunverulegum samnorrænum raforkumarkaði. Þá hafa verið lagðir sæstrengir frá Norðurlöndum til annarra Evrópuríkja og fleiri slíkir eru í bígerð, m.a. frá Noregi til Bretlands. Norðurlöndin hafa hins vegar árum saman kvartað undan lélegum aðgangi að þýskum raforkumarkaði sökum veiks flutningskerfis raforku í Norður-Þýskalandi og takmarkaðs aðgangs að því. Hafa samtökin hvatt stjórnvöld sinna ríkja til að hlutast til um bættan aðgang, jafnframt því að beina slíkum óskum til evrópskra eftirlitsaðila. Takmarkað aðgengi að þýskum raforkumarkaði kostaði Norðurlöndin um 500 milljónir danskra króna í töpuðum útflutningstekjum á liðnu ári, eða um 9,5 milljarða ÍSK, miðað við vannýtta flutningsgetu ríkjanna til Þýskalands. Á Íslandi og í Noregi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 100% í raforkuvinnslu. Þetta hlutfall er um 62% í Svíþjóð, 43% í Danmörku og 31% í Finnlandi. ESB-meðaltalið er rúm 25%.
23. janúar 2016 Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku: Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt. Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum. Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara. Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta. Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari. Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.
18. desember 2015 Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum er nú fagnað víða um heim. Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er gríðarleg áskorun fyrir mannkyn, en um leið afar brýnt verkefni. Stærsta viðfangsefnið er að draga úr brennslu á jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Að minnka orkunotkun og/eða auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita, sólarorku og vindorku. Orkugjafa sem allir hafa vissulega einhver sjónræn áhrif í för með sér, en hverfandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir háleit markmið frá París mun þessi þróun hins vegar taka mjög langan tíma og ljóst að jarðefnaeldsneyti verða áfram nýtt sem orkugjafar víða um heim um langa hríð. Græna orkan sparar mikla losun Ísland er sem kunnugt er í algerlega einstakri stöðu, en hér byggir nánast öll raforkuvinnsla og húshitun á endurnýjanlegum orkugjöfum – vatnsafli og jarðvarma. Orkustofnun hefur tekið saman að með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í stað olíu spörum við andrúmsloftinu um 18 milljón tonn af losun koldíoxíðs árlega (að ógleymdum gríðarlegum gjaldeyrissparnaði). Stofnunin bendir jafnframt á að með nýtingu allra orkukosta sem nú eru til umfjöllunar á vettvangi rammaáætlunar mætti þrefalda þennan sparnað í um 50 milljónir tonna á ári. Til samanburðar losa Frakkar um 320 milljónir tonna árlega í andrúmsloftið, en þar búa 66 milljónir manna. Enginn reiknar auðvitað með þessari þróun rammaáætlunar, en þetta dæmi endurspeglar jákvætt framlag vatnsafls og jarðvarma til loftslagsmála. Tækifæri framundan Þrátt fyrir okkar miklu sérstöðu höfum við ýmis tækifæri til að ná enn meiri árangri á þessu sviði, ekki eingöngu með aukinni nýtingu grænna orkugjafa hérlendis. Rafvæðing samgangna er augljóst dæmi, en sú spennandi þróun er sannarlega hafin. Áratugum saman hafa Íslendingar deilt þekkingu sinni af nýtingu jarðvarma með öðrum þjóðum og enn stendur til að efla þá starfsemi. Þá hefur mögulegur sæstrengur til Bretlands verið til skoðunar, en slíkur strengur hefði í för með sér tækifæri til bættrar nýtingar á okkar grænu orku og á móti mætti t.d. minnka brennslu á kolum í Bretlandi. Við getum því bæði verið stolt af okkar græna orkukerfi og horft bjartsýn til enn aukins framlags okkar til þess til að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda.
29. september 2015 Gagnrýni á veikum grunni Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku: Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 19. september fer formaður Landverndar mikinn í gagnrýni sinni á bæði forstjóra og kerfisáætlun Landsnets, í kjölfar viðtals við forstjórann í sama blaði. Ekki verður brugðist við öllum þeim ummælum hér. Rétt er þó að minna á að skv. 9. grein raforkulaga nr. 65/2003 er það skylda Landsnets að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Núverandi staða flutningskerfis raforku torveldar uppbyggingu atvinnulífs víða um land og þörf uppbyggingar og eflingar kerfisins er orðin knýjandi. Óskandi er að farsæl afgreiðsla kerfisáætlunar Landsnets geti markað upphaf þessarar nauðsynlegu uppbyggingar, sem til dæmis ýmis iðnfyrirtæki á Norðurlandi og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa ítrekað kallað eftir. Formaður Landverndar rifjar í grein sinni upp skýrslu sem kanadíska fyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd, um jarðstrengi og loftlínur til raforkuflutnings. Fjallar hann um niðurstöður skýrslu Metsco þess efnis að líftímakostnaður við 132 kV jarðstrengi sé sá sami og við 132 kV loftlínur og einungis 25% hærri við 220 kV strengi en við sambærilegar loftlínur. Úttekt EFLU á skýrslu Metsco Í kjölfar útgáfu umræddrar skýrslu Metsco tók EFLA verkfræðistofa saman all ítarlega greinargerð, í samstarfi við Friðrik Má Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem skoðaðar voru forsendur og útreikningar skýrslunnar. Meðal annars er þar bent á mikilvægi þess að meta á raunhæfan hátt kostnað við raforkutöp í flutningskerfinu og kostnað við rekstur og viðhald flutningsmannvirkja. Þá er sagt afar mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig út frá aðstæðum á lagnaleið og því erfitt að draga ályktanir út frá einu dæmi. Munur út frá forsendum Metsco reyndist við útreikninga EFLU ýmist meiri eða minni en fram kemur í skýrslu Metsco. Loks skal hér nefnt úr greinargerð EFLU að aðstæður til strenglagningar eru nokkuð aðrar hér en í nágrannalöndum, varmaleiðni jarðvegs er minni hér og aðstæður víða erfiðar fyrir strenglagnir svo sem á hraunasvæðum. Þessar niðurstöður EFLU fengu meðal annars kynningu á málþingi Verkfræðingafélags Íslands um loftlínur og jarðstrengi. Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.