Standast forsendur í sáttmála Framtíðarlandsins?

Framtíðarlandið hefur sett fram það sem samtökin kalla sáttmála um framtíð Íslands. Þar er boðuð stöðvun allra mögulegra framkvæmda við virkjanir og stóriðju þar til samþykktur hafi verið annar áfangi rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og áætluninni gefið lögformlegt vægi. Samkvæmt þessu er væntanlega farið fram á að stöðvaðar verði framkvæmdir sem nú þegar hafa farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og hlotið ýmis tilskilin leyfi, með miklum kostnaði við rannsóknir, hönnun og svo framvegis.

Samorka gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að hópur fólks vilji aukna áherslu á náttúruvernd og setji fram þau sjónarmið. Ljóst er að Framtíðarlandið vill að náttúran njóti ávallt alls vafa og um þá afstöðu verður ekkert deilt, þótt aðrir geti verið þessari afstöðu ósammála. Margt af meintum röksemdafærslum Framtíðarlandsins er á hinn bóginn fjarri því hafið yfir gagnrýni og skal hér tæpt á nokkrum atriðum í því sambandi, en af nógu er að taka.

Rétt að fækka ferðamönnum?
Í sáttmálanum er talað um þensluáhrif af stóriðjuframkvæmdum (virkjanaframkvæmdir væntanlega með taldar) og þær sagðar draga úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins. Nú hefur margoft komið fram að þenslu undanfarinna ára megi rekja til ýmissa þátta, svo sem breytinga á íbúðalánamarkaði og mikillar útlánaaukningar í bankakerfinu. Framkvæmdir vegna stóriðju og vegna nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum koma þar einnig við sögu. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur raunar bent á þá sérstöðu að hagstjórnaráhrif slíkra framkvæmda eru að mestu fyrirséð og því hægt að bregðast við þeim í tíma. Þarna er hins vegar á ferðinni sú kenning að einhver ein eða tvær atvinnugreinar eigi að bera ábyrgð á stöðugleika í efnahagsmálum. Hagfræðingur Samtaka iðnaðarins benti nýlega á að þannig mætti eins leggja til að dregið yrði úr þorskveiðum eða reynt að fækka ferðamönnum, en að enn betra væri þó hemja bankana enda eru þeir miklu fyrirferðarmeiri í hagkerfinu en áliðnaður. Einstakar atvinnugreinar geta ekki borið ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Íslensk orkuþekking í útrás
Um þá fullyrðingu að framkvæmdir við virkjanir og stóriðju dragi úr uppbyggingu þekkingarsamfélagsins er margt að segja. Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Svipaða sögu má segja um álfyrirtækin. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar.

Það geta væntanlega allir tekið undir með Framtíðarlandinu um að hér skuli byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fái að njóta sín. En það stenst enga skoðun að stilla nýtingu endurnýjanlegra orkulinda eða uppbyggingu stóriðju upp sem einhvers konar hindrunum við þessa jákvæðu framtíðarsýn.

Ísland í einstakri stöðu með endurnýjanlega orku
Loks er rétt að nefna hér þann vilja Framtíðarlandsins að Ísland taki Evrópusambandið sér til fyrirmyndar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, en í sáttmálanum er vísað í nýleg markmið ESB í þeim efnum sem miðast við árið 2020. Fyrir þann tíma hyggst ESB hafa náð þeim áfanga að 20% orkunotkunar innan þess verði frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Hlutfallið er í dag 6-7% og lítið hefur komið fram um það hvernig ESB hyggst þrefalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa á þessum tíma. Á Íslandi er þetta hlutfall í dag 72%.

Hlýnun á lofthjúpi jarðar er fyrst og fremst rakin til brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgir. Fyrir vikið er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði, samanber fyrrnefnt markmið ESB. Ísland er í einstakri stöðu í heiminum hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og þarf ekki að taka ESB sér til fyrirmyndar þegar kemur að orku- og loftslagsmálum. Þau tengsl eru á hinn veginn. Ef dæma má af fréttaflutningi frá blaðamannafundi Framtíðarlandsins var hins vegar fjallað þar um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá einhverjum langtum fleiri og stærri álverksmiðjum en hér eru starfandi eða aðilar hafa uppi áform um að reisa hér.

Dagur vatnsins – Þúsaldarmarkmið SÞ, ráðstefna Samorku fimtudaginn 22. mars

Fimmtudagurinn 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti verði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni. Samorka mun af þessu tilefni standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun og félagasamtök sem vinna að þróunaraðstoð í vatnsveitu- og fráveitumálum. Sjá nánar á sérstakri síðu um ráðstefnuna.

Hrein orka, þekkingariðnaður, sparnaður í olíuinnflutningi…

Orkumál færast nú óðum ofar á dagskrám ríkisstjórna og ríkjabandalaga um heim allan, ekki síst í samhengi við baráttuna gegn hlýnun lofthjúpsins. Vandinn sem þar er við að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þá eru sums staðar uppi áhyggjur af ótryggu framboði á mikilvægum orkugjöfum, til dæmis gasi.

Hrein orka á Íslandi
Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í orkunotkun 72%, en um 6-7% innan Evrópusambandsins og um 13% á heimsvísu. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu á jarðefnaeldsneyti er nú á alþjóðavettvangi lögð mikil áhersla á aukinn hlut endurnýjanlega orkugjafa, sem losa engar eða hverfandi litlar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þarna er Ísland í einstakri stöðu á heimsvísu.

Þekkingariðnaður – fyrsti hátækniiðnaðurinn – útrás
Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar (sjá erindi dr. Ágústs Valfells, lektors við Háskólann í Reykjavík).

Veitufyrirtæki greiða þriðju hæstu meðallaun á Íslandi
Ef horft er til átján atvinnugreinaflokka Hagstofunnar má sjá að í flokknum veitustarfsemi eru greidd þriðju hæstu meðallaunin á Íslandi (miðað við árið 2005, nýjustu tölur þegar þetta er ritað, sjá vef Hagstofunnar). Hæst trónir fjármálaþjónusta, en fiskveiðar og veitustarfsemi koma í næstu sætum þar á eftir, talsvert langt fyrir ofan næstu flokka.

Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Kynding með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella færu í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (sjá erindi dr. Valgarðs Stefánssonar frá Orkustofnun). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu.

Dagur vatnsins 22. mars nk – ráðstefna Samorku

Fimmtudagurinn 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti verði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni.

Þekking og þróunaraðstoð

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, mun af þessu tilefni standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun og félagasamtök sem vinna að þróunaraðstoð í vatnsveitu- og fráveitumálum. Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. Íslensk þróunaraðstoð hefur jafnframt meðal annars beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjum. Ætlun ráðstefnunnar í Orkuveituhúsinu er að leiða saman fagaðila í vatns- og fráveitumálum hér á landi og þá íslensku aðila sem starfa að og hafa áhuga á þróunaraðstoð erlendis, fjalla um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mögulegt framlag Íslendinga til að auka aðgengi að hreinu vatni í þróunarlöndum.

 

Stefna stjórnvalda

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun fjalla um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en jafnframt munu fjölmargir aðilar flytja erindi og ræða í pallborði um Þúsaldarmarkmiðin, um íslenska þekkingu á þessu sviði og um verkefni íslenskra aðila á sviði þróunaraðstoðar sem tengjast þema degi vatnsins.

 

Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins almennt.

Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins árið 2007.

 

Efasemdir um loftslagsmarkmið ESB

Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020. Jafnframt hefur ESB sett sér markmið um að fyrir árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan sambandsins orðið 20%, en þetta hlutfall er nú um 6-7%. Þess ber að geta að á Íslandi er þetta sama hlutfall 72%.

Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) telja þessi markmið mjög metnaðarfull og lýsa skilningi á umhverfislegu og pólitísku mikilvægi þeirra. Hins vegar lýsa samtökin áhyggjum af einhliða eðli yfirlýsinganna og kvarta undan óvissu um hvernig ESB eigi að ná þessum markmiðum. Evrópusamtök atvinnulífsins leggja áherslu á að einhliða aðgerðir af hálfu ESB muni ekki leysa neinn loftslagsvanda, heldur verði slikar aðgerðir að vera á heimsvísu. Ennfremur lýsa samtökin yfir áhyggjum af því að ekkert liggi fyrir um hvernig eigi að ná þessum háleitu markmiðum á sviði orku- og loftslagsmála og leggja á það áherslu að einhliða aðgerðir af hálfu ESB geti einfaldlega haft þau áhrif að draga úr samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs.

Sjá yfirlýsingu forseta Evrópusamtaka atvinnulífsins, Ernest-Antoine Seilliére, til COREPER, fastanefndar aðildarríkja ESB.

Hrein orka og hlýnun loftslags

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Eftirspurn eftir orku fer hratt vaxandi og ef fram heldur sem horfir mun orkuþörf mannkyns aukast um 50% næsta aldarfjórðunginn. Jafnframt stefnir í að brennsla á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – verði æ stærri hluti af þessari vaxandi orkuköku, með þeirri auknu losun gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Þorkels Helgasonar orkumálastjóra á dögunum, á hádegisverðarfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Hrein orka á Íslandi
Sama dag var haldinn aðalfundur Samorku þar sem samþykkt var ályktun um loftslagsmálin, Ísland og endurnýjanlega orkugjafa. Þar er baráttunni gegn vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda lýst sem einni mikilvægustu áskorun veraldar nú um stundir. Jafnframt er í ályktun fundarins lýst sérstökum fögnuði yfir því að íslenskir fjárfestar séu nú að hefja aukna útrás í krafti íslenskrar þekkingar á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þar eiga Íslendingar langa sögu og hafa til dæmis lengi verið í fararbroddi þekkingar á nýtingu jarðhita, auk þess sem hér er nú unnið mikið starf við rannsóknir og þróun á nýjum vistvænum orkugjöfum.

Loftslagsvandinn sem við er að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Um allan heim er því lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði. Evrópusambandið hefur til dæmis sett sér það metnaðarfulla markmið að árið 2020 verði 20% heildarorkunotkunar innan þess fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, en þar er þetta hlutfall nú um 7%. Á Íslandi er þetta hlutfall hins vegar um 72%, og nær 100% ef horft er til raforkuframleiðslu og húshitunar.

Ísland er þess vegna í einstakri stöðu í þessu samhengi og útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna nýtingar okkar endurnýjanlegu orkulinda er hverfandi samanborið við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við svonefnda Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðjuvera, enda yrðu loftslagsáhrif af starfsemi þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Loftslagsmálin eru jú í eðli sínu hnattrænt viðfangsefni. Nýlega var nefnt dæmi um sjöfalda losun gróðurhúsalofttegunda vegna álvers sem byggir á orku frá kolum, miðað við álver sem nú er verið að reisa hér á landi.
 
Okkar framlag
Einstakar virkjunarframkvæmdir verða ávallt tilefni skoðanaskipta út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Hlýnun lofthjúps jarðar kallar hins vegar á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, sem er allt önnur umræða. Því er ljóst að auk nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum hérlendis, og með frumkvöðlastarfsemi við þróun nýrra vistvænna orkugjafa, munu Íslendingar með útrás þekkingar hins íslenska orkugeira leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans – baráttunni gegn hlýnun lofthjúps jarðar.

Loftslagskvótar myndu auka verðmæti orkulinda okkar

Orkumál á krossgötum – Hvert stefnir? Hvað viljum við? Þessi var titill erindis sem Þorkell Helgason orkumálastjóri flutti á hádegisverðarfundi Samorku um orku- og loftslagsmál, sem haldinn var í kjölfar aðalfundar samtakanna. Þorkell fjallaði um loftslagsmálin og um stöðu mála í orkubúskap veraldar, og um stöðu Íslands í þessu samhengi. Þorkell dró mál sitt þannig saman í lokin og „kastaði fram nokkrum spurningum, jafnvel fullyrðingum:“

  1. Mannkynið stendur ótvírætt á krossgötum í orkumálum. Tími
    ódýrs jarðefnaeldsneytis er liðinn og loftslagið þolir ekki meiri
    útblástur.
  2. Vonandi næst samstaða þjóða á meðal um kröftuga stjórn á
    loftslagsmálum. Æskilegast er að það væri með almennum
    framseljanlegum losunarkvótum. Markaðsöflin munu þá sjá til
    þess að lausnir finnist.
  3. Við Íslendingar erum í grundvallaratriðum vel settir í þessu
    samhengi. Við þurfum ekki að óttast loftslagskvóta; þvert á
    móti auka þeir verðmæti orkulinda okkar. Við ættum því að
    fagna slíku fyrirkomulagi.
  4. Þá eigum við að hasla okkur völl í alþjóðasamfélaginu á sviði
    vistvænnar orku. Beinast liggur þá við að hefja stórútrás í jarðhitamálum;
    ekki aðeins á þekkingu og vísindum á sviði hans
    heldur einnig á rekstrarþættinum. Einnig getum við orðið
    brautryðjendur á sviði vistvæns eldneytis.
  5. Okkur skortir heildstæða orkustefnu um það hvað við viljum
    nýta og í hvaða áföngum. Um það hvernig við viljum deila út
    orkugæðunum og hvað eigi að verða um vaxandi arð af þeirri
    nýtingu.
  6. Sama á við um losunarkvóta. Við þurfum strax að móta
    heildarstefnu um útdeilingu þeirra.

Sjá erindi Þorkels á vef Orkustofnunar.

 

Franz Árnason nýr formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku var Franz Árnason, Norðurorku, kjörinn formaður stjórnar og tekur hann við formennsku af Friðrik Sophussyni, Landsvirkjun. Þórður Guðmundsson, Landsneti, kemur nýr í stjórn í stað Kristjáns Haraldssonar, Orkubúi Vestfjarða. Kristján er varamaður í nýrri stjórn og kemur þar inn í stað Páls Pálssonar, Skagafjarðarveitum. Ný stjórn á að öðru leyti eftir að skipta með sér verkum en hana skipa nú:

  • Ásbjörn Blöndal, Selfossveitum
  • Franz Árnason, Norðurorku, formaður
  • Friðrik Sophusson, Landsvirkjun
  • Guðmundur Þóroddsson, Orkuveitu Reykjavíkur
  • Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja
  • Tryggvi Þór Haraldsson, Rarik
  • Þórður Guðmundsson, Landsneti

Varamenn:

  • Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
  • Hreinn Hjartarson, Orkuveitu Húsavíkur
  • Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða

Aðalfundur Samorku ályktar um loftslagsmál

Ályktun aðalfundar Samorku      
Reykjavík, 9. febrúar 2007

Loftslagsmálin, Ísland og endurnýjanlegir orkugjafar 
Ein mikilvægasta áskorun veraldar nú um stundir er baráttan gegn vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda. Í nýrri skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er kveðið enn fastar að orði en áður um þá ályktun að mannkynið hafi valdið breytingum til hlýnunar á loftslagi. Vandinn sem við er að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgir.
 
Áhersla á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa
Fyrir vikið er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði. Á dögunum setti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sér til dæmis markmið um að árið 2020 yrðu 20% heildarorkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Áður hefur Evrópusambandið sett sér markmið um að árið 2012 yrði þetta hlutfall 12% en nú er ljóst að það markmið mun ekki nást og í dag er hlutfallið um 7%.
 
Sérstaða Íslands viðurkennd
Ísland er hins vegar í einstakri stöðu í þessu samhengi, en hér eru nú um 72% heildarorkunýtingar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, og nær 100% ef horft er til raforkuframleiðslu og húshitunar. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna nýtingar þessara endurnýjanlegu orkulinda er hverfandi samanborið við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við svonefnda Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðjuvera, enda yrðu loftslagsáhrif af starfsemi þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Nýlega var nefnt dæmi um sjöfalda losun gróðurhúsalofttegunda vegna álvers sem byggir á orku frá kolum, miðað við álver sem nú er verið að reisa hér á landi.
 
Útrás þekkingar
Íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og rannsóknarstofnanir ýmiss konar hafa áratugum saman verið í fararbroddi við mótun þekkingar á hagnýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Aðalfundur Samorku telur það þess vegna mikið fagnaðarefni að um þessar mundir eru íslenskir fjárfestar að hefja aukna útrás í krafti íslenskrar þekkingar á þessu sviði. Einstakar virkjunarframkvæmdir verða ávallt tilefni skoðanaskipta út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Hlýnun lofthjúps jarðar kallar hins vegar á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Því er ljóst að auk nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum hérlendis, og með frumkvöðlastarfsemi við þróun nýrra vistvænna orkugjafa, munu Íslendingar með útrás þekkingar hins íslenska orkugeira leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans – baráttunni gegn hlýnun lofthjúps jarðar.