Námskeið um innra eftirlit vatnsveitna

Föstudaginn 19. okt. sl. var haldið námskeið um innra eftilit og hreinlæti hjá vatnsveitum. Áherslan var á hvernig standa ætti að kerfisbundnu fyrirbyggjandi eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns. Íslenskar vatnsveitur hafa staðis sig vel í að setja upp gæðakerfi í vatnsveitum og nú búa um 77% íbúa landsins við það að fá vatn frá vatnsveitu sem hefur slíkt fyrirbyggjandi eftirlit.  En þar sem skóinn kreppir er helst hjá minni vatnsveitum. Samorka hefur þróað einfaldara kerfi fyrir minni vatnsveitur og hafa margar minni vatnsveitur verið að koma því á. 

Farið var yfir hvaða lög og reglugerðir eru í gildi fyrir vatnsveitur, Hvernig best sé að standa að hreinlæti og eftirliti. Rætt var um hvaða er helst að varast og hvað það er sem getur mengað vatnið.  Einnig var farið yfir vatnsbornar hópsýkingar sem hafa orðið á Íslandi og hvað olli þeim. Að lokum var farið yfir hvernig standa ber að sýnatöku og sýnd hentug mælitæki.

 

Alþjóða jarðhitasamfélagið þingar á Íslandi – aðalfundur IGA og haustþing JHFÍ

Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 9. október um alþjóðlega þróun og horfur á sviði jarðhitanýtingar. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mun opna fundinn en í kjölfarið mun fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga flytja erindi um þróun og horfur á þessu sviði. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst kl. 8:45. Öll erindi og umræður verða á ensku.

Fundurinn er haldinn í tengslum við aðal- og stjórnarfund Alþjóða jarðhitafélagsins (International Geothermal Association – IGA) hér á landi dagana 10. og 11. október. Um 50 erlendir gestir víðs vegar að úr heiminum sækja fundinn og um leið haustþing Jarðhitafélags Íslands, allt sérfræðingar á sviði jarðhitanýtingar. Munu þeir jafnframt sækja heim jarðhitavirkjanir og virkjanasvæði á Hellisheiði og Reykjanesi og fræðast um nýtingu jarðhita hér á landi.

Haustfundur JHFÍ er öllum opinn. Þátttaka tilkynnist til Samorku s. 588 4430 eða the@samorka.is

Þátttökugjald: 5.000 kr, 500 kr. fyrir nema og eldri borgara, hádegisverður og aðrar veitingar innifaldar.

Sjá dagskrá haustfundar JHFÍ hér

Rafveituvirkjanám

Rafveituvirkjanám er nú hafið við Iðnskólann í Reykjavík.
Til náms eru skráðir 20 nemendur.
Kennslan fer fram í lotum, þannig að einungis er kennt eitt fag í hverri lotu. Á þann hátt er komið til móts við nemendur sem eru í fastri vinnu.
Ekki hefur nein kennsla í þessari löggiltu iðngrein farið fram á undanförnum árum. Hér er því virkilega verið að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, sérstaklega raforkufyrirtækjanna.

Samningur um ljósastaura- útboð á ljósaperum

Samningurinn um ljósastaurana er um afhendingu á að minnstakosti 8670 staurum á næstu þremur árum, fyrir kr. 178 milljónir. Að auki er í samningnum ákvæði um möguleika á framlengingu samningstíma um tvö ár.

Tilboðin í ljósaperuviðskiptin voru 8 frá 7 fyrirtækjum og eru um viðskiptin til þriggja ára. Tilboðin sem bárust voru á bilinu 10,6- 33,6 milljónir kr.  Úrvinnsla tilboða fer nú fram.

Vatnsmæling í grennd – Samorka styður þátttöku skólabarna í alþjóðlegu verkefni

Skólaverkefni þar sem börn í 6. og 7. bekk mæla gæði vatnsins í sínu nágrenni verður unnið á tímabilinu 18. september til 18. október. Þetta er gert að alþjóðlegri fyrirmynd –  „World Monitoring Day.“ Verkefnið á uppruna í Bandaríkjunum en hefur breiðst út víða á undanförnum árum. (Sjá nánar á alþjóðlegri vefsíðu verkefnisins). Mælt er uppleyst súrefni, sýrustig, grugg og hitastig. Allir þessir þættir vísa á heilnæmi vatnsins fyrir lífríkið, en verkefninu er ætlað að efla vitund um mikilvægi góðrar umgengni við vatnið, hvað mengi vatnið og hvernig megi draga úr mengun vatns. Um leið vilja Samorka og vatnsveiturnar vekja athygli á heilnæmi íslenska vatnsins og virkja rannsóknaráhugann og „vísindamanninn“ í íslenskum skólabörnum.

Sex grunnskólar taka þátt
Í samstarfi við Samorku og vatnsveitur á hverjum stað hefur verið ákveðið að sex grunnskólar taki þátt í verkefninu í ár. Skólarnir sem nú taka þátt eru Melaskóli og Norðlingaskóli í Reykjavík, Klébergsskóli á Kjalarnesi, Hofsstaðaskóli í Garðabæ, Varmárskóli í Mosfellsbæ og Fellaskóli í Fellabæ.

Fræðsluefni unnið fyrir vef KHÍ
Sem fyrr segir er miðað við að verkefnið sé unnið á tímabilinu 18. sept. til 18. október og niðurstöðum skilað inn á alþjóðlegu vefsíðuna í desember. Samorka og vatnsveitan á viðkomandi stað leggja til mælisettin og fulltrúi vatnsveitunnar kemur í skólann og fræðir um vatnsveituna á staðnum og mikilvægi þess að ganga vel um vatnið. Opnuð hefur verið íslensk vefsíða fyrir verkefnið sem Orkuveita Reykjavíkur kostar. Sérstakt eyðublað er til að færa inn niðurstöðurnar og þær verða sendar til Samorku sem síðan setur þær inn á alþjóðlega vefsíðu verkefnisins. Einnig er fyrirhugað að bjóða nemenda í Kennaraháskóla Íslands að gera lokaverkefni með fræðsluefni um vatn til að hafa á vefsíðunni, en hafin er þróun fræðsluefnis um mikilvægi vatnsverndar sem vistað verður á vef verkefnisins.

Miklar fjárfestingar framundan í orkukerfum jarðar

Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn, fjallaði um atvinnulíf og loftslagssamninga á fundi Samtaka atvinnulífsins. Halldór kom víða við í fyrirlestri sínum og fjallaði um kolefnismarkaði, stöðuna í alþjóðaviðræðum, hvað taki við eftir 2012 og svo framtíðarsýn um hvernig verði dregið úr útstreymi til lengri tíma. Halldór lagði áherslu á að loftslagsvandinn yrði leystur af atvinnulífi með nýrri tækni, rannsóknum og því að efnahagslegir hvatar leiði til hagkvæmra lausna. Hann sagði mikilvægt að alþjóðasamningar skapi ramma til langs tíma sem bæði hvetji til fjárfestinga í nýrri tækni og gefi þróunarríkjum tækifæri til þátttöku. Þá sagði Halldór miklar fjárfestingar framundan í orkukerfum jarðar.

Sjá erindi Halldórs á vef SA.

Nám í rafveituvirkjun

Námsfyrirkomulag er skipulagt þannig að kennt verður í lotum, ein námsgrein í einu, þannig að menn í fastri vinnu eiga auðveldara með að sækja námið. Sjá nánar á hlekk inn á auglýsinguna hér á síðunni.

Auglýsing um rafveituvirkjanámið, smellið hér

„Vopnasalar borða líka fisk“ – Fréttablaðsgrein eftir Gústaf Adolf Skúlason

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Undanfarnar vikur höfum við fylgst með óhefðbundnum aðgerðum um það bil 30 manna hóps gegn álverum og ýmsu fleiru, með dyggri aðstoð sumra fjölmiðla. Í sumum tilvikum höfum við einnig hlýtt á viðtöl við talsmenn hópsins. Þar hefur meðal annars ítrekað komið fram að mótmæli gegn álverum snúist um að ál sé notað til vopnaframleiðslu og í „hernaði“.

Nú vitum við auðvitað öll að ál er notað til ótal margra hluta, til dæmis í matvæla- og lyfjaiðnaði, í bíla, skip, flugvélar, ljósastaura, hljómflutningstæki, myndavélar, úðabrúsa, farsíma… og þannig mætti afar lengi telja. Ætla verður að mótmælendurnir fyrrnefndu takmarki af fremsta megni eigin notkun á öllu sem áli tengist.

Hvað vopnaframleiðsluna varðar þá vitum við hins vegar líka öll að þar koma ýmis efni og aðrar bjargir til sögunnar en ál. Þess má til dæmis geta að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa þróað hugbúnað samkvæmt samningum við bæði breska og bandaríska herinn. Gott ef norski herinn átti ekki einhvern tímann samstarf við íslenska framleiðendur hlífðarfatnaðar. Allt er þetta gott og blessað. Þarna er um að ræða arðbær viðskipti við bandamenn, ríki sem við höfum áratugum saman starfað með í varnarbandalagi og höfum átt við beint samstarf um varnir Íslands.

Hlusta hermenn á Björk?
Eða hvað? Geta þessi hugbúnaðarfyrirtæki átt von á málningarslettum á sín húsakynni? Að starfsemi þeirra verði trufluð þar til fjölmiðlar hafa náð að mynda uppákomurnar? En hvað þá með aðra aðila sem hafa framleitt varning sem hermenn og jafnvel hershöfðingjar nota? Ætli bandarískir hermenn hlusti á Björk? Ætli sovéskir hershöfðingjar hafi jafnvel sporðrennt íslenskri saltsíld áður en haldið var með skriðdrekana inn í Búdapest eða Prag? Hver er þá samviska fólksins sem saltaði hér síldina niður í tunnur? Hvað ef jafnvel vopnaframleiðendur, til dæmis í Svíþjóð, borða fisk? Getum við þá verið að veiða hann og selja þangað út?

Er kannski orðið tímabært að fjölmiðlar fari að hlífa okkur við þessum málflutningi?