2. febrúar 2010 Ráðherrann vanhæfur? Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingar skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár, að sögn þar sem þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu hafi stangast á við skipulags- og byggingarlög. Annars vegar er um að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem ráðuneytið telur sér ekki heimilt að staðfesta. Hins vegar er um að ræða aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018, sem ráðuneytið samþykkir að öðru leyti en því sem snýr að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Nú liggur fyrir að sveitarfélögin og framkvæmdaaðilinn gerðu sína samninga í góðri trú. Hugsanlega er þó ástæða til að styrkja lagaheimild fyrir slíkri kostnaðarþátttöku framkvæmdaaðila í skipulagslögum, þar sem ráðherra virðist nú hafa mótað þá stefnu að túlka skort á beinu heimildarákvæði sem ígildi bannákvæðis. Við blasir að ekki verður við það fyrirkomulag unað að fámenn sveitarfélög þurfi sjálf að kosta nauðsynlega skipulagsvinnu vegna framkvæmda sem e.t.v. eru þjóðhagslega mjög hagkvæmar, þótt sjálft sveitarfélagið hafi ekki af þeim miklar beinar tekjur. Það gæti einfaldlega þýtt að ekkert yrði úr neinum slíkum framkvæmdum. En er þetta raunveruleg ástæða synjunar ráðherra? Ástæða er til að efast um það, sem og að staldra við ýmis atriði í málflutningi ráðherrans í viðtali við Fréttablaðið. „Borðleggjandi“ en samt fjórtán mánuði á borði ráðuneytisUmhverfisráðherra segir úrskurðinn í raun hafa verið „borðleggjandi“. Engu að síður var málið í fjórtán mánuði á borði ráðuneytisins. Ef úrskurðurinn var borðleggjandi líkt og ráðherrann heldur fram, hefði þá ekki verið nær að fella hann miklu fyrr í stað þess að skilja málið eftir í óvissu allan þennan tíma? Getur þetta talist ásættanleg stjórnsýsla? „Almannahagsmunir“ að skapa óvissu um fjárfestingar?Ráðherrann segir að í þágu „almannahagsmuna“ hafi sér ekki verið stætt á öðru en synjun. Eru það almannahagsmunir að setja jafnvel áætlanir um erlenda fjárfestingu og stórframkvæmdir í íslensku atvinnulífi í uppnám? Eru það almannahagsmunir að senda erlendum fjárfestum enn ein skilaboðin um að búast megi við hverju sem er þegar íslensk stjórnsýsla er annars vegar, þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar – í svokölluðum stöðugleikasáttmála – um að greiða götu stórframkvæmda? Skilur ráðherrann ekki eðli endurnýjanlegra orkulinda?Ráðherrann talar um ráðstöfun virkjanakosta „eins og það sé ekki fleiri kynslóða að vænta á Íslandi.“ Þarna talar ráðherrann um nýtingu vatnsafls með rennslisvirkjunum eins og um námagröft sé að ræða. Ráðherrann virðist ekki skilja eðli endurnýjanlegra orkulinda, þrátt fyrir að aukin nýting þeirra sé efst á baugi í umhverfisumræðunni um veröld alla, í stað brennslu jarðefnaeldsneytis. Rætt hefur verið um að nýta orku þessara rennslisvirkjana til nýrrar orkukrefjandi starfsemi á borð við gagnaver. Slíkir aðilar falast gjarnan eftir samningum um raforkukaup til ca. 15 ára. Vatnsaflsvirkjanir eru almennt taldar hafa endingartíma til eitt hundrað ára eða lengur, og í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að mannvirkin verði endurnýjuð til að endast miklum mun lengur en það. Vatnið rennur áfram, komandi kynslóðir munu áfram njóta teknanna af þessari grænu orku. Ráðherrann einfaldlega á móti þessum virkjunum?Loks segir ráðherrann, spurð um afstöðu til virkjana í neðri hluta Þjórsár, að það eigi að fara varlega í nýjar virkjanir, jarðhita og vatnsafls. Er hérna komin raunveruleg ástæða synjunarinnar? Ráðherrann hefur áður tafið þetta ferli með vísan í formsatriði er varðar auglýsingar á breyttu skipulagi. Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega á móti því að farið verði í þessar framkvæmdir? Er ráðherrann þá e.t.v. vanhæfur þegar kemur að endurteknum úrskurðum um formsatriði í þessu máli?
28. janúar 2010 Hreint vatn og hrein orka: Ísland stendur sig best í umhverfismálum Ísland er í fyrsta sæti 163 ríkja á lista þar sem löndum er raðað eftir frammistöðu í umhverfismálum, en listinn er unninn af sérfræðingum við Columbia- og Yale- háskólana í Bandaríkjunum. Alls er byggt á upplýsingum um 25 viðmið og er Ísland með hæstu mögulegu einkunn í ellefu tilvikum, sem snúa einkum að miklum gæðum og framboði neysluvatns, lítilli losun gróðurhúsalofttegunda, lítilli loftmengun og lítilli (nánast engri) losun kolefnis vegna raforkuframleiðslu. Þá þykja Íslendingar standa sig vel á sviði skógræktar. Með öðrum orðum, þá eru það einkum hreina vatnið og hreina orkan sem eru lykillinn að þessari sterku stöðu Íslands. Skýrsluna má skoða hér á vefsíðu Yale-háskóla.
10. desember 2009 Samorka mótmælir nýjum orkusköttum Stjórn Samorku mótmælir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja nýja skatta á raforku og heitt vatn, skatta sem draga munu úr lífsgæðum landsmanna og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auk þess að draga úr gegnsæi verðlagningar á raforku og heitu vatni. Lágt verð á raforku og á heitu vatni til kyndingar hefur lengi verið einn af helstu kostum búsetu og fyrirtækjareksturs á Íslandi, fyrir nú utan að hér er orkan grænni en víðast hvar ef ekki alls staðar annars staðar. Flest orku- og veitufyrirtæki hafa enda verið rekin með afar lága arðsemi af þeirri grunnþjónustu sem þau sjá landsmönnum fyrir (arðsemin hefur hins vegar almennt verið hærri af raforkusölu til stóriðju). Nú hyggst ríkisstjórnin raska þessari mynd með fyrstu beinu sköttunum hérlendis á raforku og heitt vatn, sem Samorka mótmælir sem fyrr segir. Heiti frumvarpsins vísar til „umhverfis- og auðlindaskatta“, en hér er hvorugt á ferðinni. Þetta er einfaldlega ný skattheimta af orkunotkun landsmanna, til að auka tekjur ríkissjóðs. Ennfremur lýsa samtökin áhyggjum af því að þessir nýju skattar verði enn hækkaðir þegar fram í sækir, stjórnvöld muni freistast til þess þegar einu sinni er búið að koma nýju sköttunum á. Skv 13. gr. frumvarpsins eru þessari nýju skattar á raforku og heitt vatn tímabundin ráðstöfun, sem falla á úr gildi í árslok 2012. Reynslan sýnir að óvarlegt er að treysta slíkum fyrirheitum. Sjá umsögn Samorku um orkuskattafrumvarp.
9. desember 2009 Megum bara nota ál frá Íslandi Íslenska jarðhitafyrirtækið Reykjavik Geothermal vinnur nú að nýtingu jarðhita fyrir borgina Masdar, sem verið er að reisa í olíuríkinu Abu Dhabi. Borgin á að vera kolefnishlutlaus og úrgangslaus, en auk sólarorku hyggjast forsvarsmenn verkefnisins nýta þar jarðhita, einkum til að knýja kælikerfi borgarinnar. Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Reykjavik Geothermal, fjallaði um verkefnið á haustþingi Jarðhitafélagsins í gær. Í máli hans kom fram að svo ströngum reglum er fylgt við byggingu borgarinnar, að fyrirtækið má ekki nota þar ál – til dæmis í skiltagerð – nema það sé frá Íslandi. Ál framleitt hér á landi hefur jú þá sérstöðu að það er framleitt með raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
21. október 2009 Erindi opins fundar um sjálfbæra nýtingu jarðhitans Sjálfbær nýting jarðhitans var yfirskrift opins fundar á Hilton Reykjavík Nordica, miðvikudaginn 21. október. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn en að honum stóðu Samorka, ÍSOR, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands og GEORG (Geothermal Reserch Group). Erindi fundarins er að finna hér að neðan. Dagskrá (hægt að sækja erindin með því að smella á heiti þeirra): Orkuforði og endurnýjanleiki jarðhitakerfa Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR – Íslenskra orkurannsókna Sjálfbær nýting jarðhitakerfa Guðni Axelsson, deildarstjóri, ÍSOR Sjálfbær nýting á Íslandi: Lághitasvæði Reykjavíkur – Sjálfbær vinnsla í 80 ár Gretar Ívarsson, jarðfræðingur, Orkuveitu Reykjavíkur Svartsengi – Farsæl orkuframleiðsla í 30 ár Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku Krafla – 30 ára barátta við náttúruöflin Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri, Landsvirkjun Power Fundarstjóri var Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri.
21. október 2009 3000 MW úr 0,2% varmaforðans á 3 km dýpi Jarðhitinn getur leikið mikilvægt hlutverk í sjálfbærri þróun, á Íslandi og á heimsvísu. Þetta kom fram í erindi Guðna Axelssonar, deildarstjóra hjá ÍSOR, á opnum fundi um sjálfbæra nýtingu jarðhitans á Hilton Nordica. Guðni sagði áratuga reynslu og rannsóknir hafa sýnt að hægt væri að nýta jarðhitakerfi á sjálfbæran hátt, því nýtt „jafnvægisástand“ kæmist oft á eftir að nýting hæfist. Vinnslan gæti þó vissulega verið ágeng og þá ekki hægt að viðhalda henni, öðru vísi en að hafa að öðrum svæðum að hverfa á meðan hin væru hvíld. 3000 MW úr 0,2% varmaforðans á 3 km dýpi Guðni sagði sjálfbæra vinnslugetu háða vinnsluaðferð (niðurdæling yki t.d. vinnslugetu) og tækniframförum. Fræðilega séð mætti vinna 3000 MW af raforku úr 0,2% þess varmaforða sem er að finna á 3 km dýpi. Að fundinum stóðu Samorka, ÍSOR, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands og GEORG (Geothermal Research Group). Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn. Sjá erindi Guðna Axelssonar.
21. október 2009 Gríðarmikil jarðhitaorka – nýtingartæknin í þróun Endurnýjanleiki er eðli orkulindar, sjálfbærni vísar til orkuvinnslu. Á þetta lagði Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, áherslu í erindi á opnum fundi um sjálfbæra nýtingu jarðhitans á Hilton Nordica. Ólafur varaði við hugtakaruglingi og nefndi ýmis dæmi úr opinberri umræðu þar sem endurnýjanleika og sjálfbærni væri ruglað saman. Hann sagði jarðhita mun nær því að vera endurnýjanlega orkulind en óendurnýjanlega, þótt vissulega væri hægt að umgangast jarðhitann á ósjálfbæran hátt. Jarðhitinn væri enda skilgreindur sem endurnýjanleg orkulind á alþjóðavísu. Pólitískt þjónaði það hins vegar mest hagsmunum jarðefna- og kjarnorkuiðnaðar að draga þessa flokkun í efa og sagði Ólafur það andstætt náttúruverndarsjónarmiðum. Röng fullyrðing Sigmundar Einarssonar Ólafur sagði það ranga fullyrðingu í umtalaðri grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings, að „stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands“ væri tómt plat. Hann sagði orkuna hér vera gríðarmikla en við byggjum hins vegar enn aðeins yfir tækni til að nýta hluta hennar á hagkvæman hátt. Næg orka til álvera á Bakka og í Helguvík væri vissulega til staðar, en ekki væri búið að ná henni og ekki víst að það tækist með hefðbundnum og fremur ódýrum aðferðum að vinna alla þessa orku á sjálfbæran hátt úr jarðhita. Þetta væri sú óvissa sem alltaf fylgdi jarðhitavinnslu og oft skorti skilning á. Ólafur sagði því mikilvægt að byggja jarðhitavirkjanir upp í áföngum og vinna markvisst að rannsóknum og þróun á tækninýjungum. Að fundinum stóðu Samorka, ÍSOR, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands og GEORG (Geothermal Research Group). Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn. Sjá erindi Ólafs G. Flóvenz.
19. október 2009 Sjálfbær nýting jarðhitans – Opinn fundur á HILTON REYKJAVÍK NORDICA 21. október Miðvikudaginn 21. október verður haldinn opinn fundur í Sal B, Hilton Reykjavík Nordica, undir yfirskriftinni Sjálfbær nýting jarðhitans. Að fundinum standa GEORG (Geothermal Research Group), iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands, ÍSOR, Orkustofnun og Samorka. Fundurinn var áður auglýstur á Grand Hótel en vegna mikillar þátttöku var hann fluttur í stærri sal, á Nordica. Opinn fundur, Sal B, Hilton Reykjavík Nordicamiðvikudaginn 21. október Dagskrá 13:00 Orkuforði og endurnýjanleiki jarðhitakerfa Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR – Íslenskra orkurannsókna 13:25 Sjálfbær nýting jarðhitakerfa Guðni Axelsson, deildarstjóri, ÍSOR 13:50 Sjálfbær nýting á Íslandi: Lághitasvæði Reykjavíkur – sjálfbær vinnsla í 80 ár Gretar Ívarsson, jarðfræðingur, Orkuveitu Reykjavíkur Svartsengi – farsæl orkuframleiðsla í 30 ár Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri, HS Orku Krafla – 30 ára barátta við náttúruöflin Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri, Landsvirkjun Power 15:00 Umræður 15:30 Fundarlok og kaffiveitingar Fundarstjóri: Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku í síma 588 4430 eða með tölvupósti til the@samorka.is Samorka ÍSOR iðnaðarráðuneytið GEORG Jarðhitafélag Íslands Orkustofnun
17. október 2009 Græna fólkið og skotmörkin Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Við sem störfum í íslenska orkugeiranum búum í tvískiptri veröld þegar kemur að umræðum um umhverfismál. Á erlendri grundu snýst umhverfisumræðan gjarnan um loftslagsmál jarðar og mikilvægi þess að draga – hnattrænt – úr notkun jarðefnaeldsneytis á borð við olíu og kol. Ræddar eru leiðir til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, vindorku og jarðvarma. Íslendingar eru venjulega í mjög sérstakri stöðu á slíkum fundum, okkar staða er algjörlega einstök, við erum „græna“ fólkið á svæðinu og rúmlega það. Hér er hlutur endurnýjanlegra orkugjafa um 80% á meðan t.d. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að ná 20% hlutfalli árið 2020. Hér eru rafmagn og hiti græn orka. Flest Evrópulönd hafa raunar þegar virkjað miklum mun hærra hlutfall af sínu vatnsafli en við höfum gert. Dæmi eru Noregur, Sviss og Austurríki, þar sem náttúrufegurð er mikil líkt og hérlendis. Færri ríki hafa hins vegar mikinn aðgang að jarðvarma líkt og við, en hann er þó mikið nýttur t.d. í Toscana héraði á Ítalíu. Og umræðan skilar enguHér á Íslandi snýst umhverfisumræðan iðulega líka um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, en á þveröfugum forsendum. Sum okkar sem starfa í orkugeiranum sóttu t.d. umhverfisþing á dögunum. Þar voru flutt ýmis fróðleg erindi, ráðuneytið kynnti vandaða skýrslu og margt jákvætt um þingið að segja. En á þinginu fundu margir hjá sér þörf fyrir að gera grín að íslenskum orkufyrirtækjum og jafnvel ausa yfir þau skömmum. Hópur fólks hló og klappaði þegar orkufyrirtækin fengu það óþvegið eða hótfyndni var beint í þeirra garð. Græna fólkið á erlendum umhverfisfundum er í hlutverki viðurkenndra skotmarka á umhverfisfundum hérlendis. Og umræðan skilar engu. Formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna ávarpaði stóran fund hér á dögunum. Hann hrósaði Íslendingum fyrir forystu í baráttunni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir ættu miklar endurnýjanlegar orkuauðlindir og skildu mikilvægi þess að nota þær. Mörgum leið eins og þau væru á fundi erlendis.
9. október 2009 Hvað á ráðherrann við? Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, heldur því fram hér í Morgunblaðinu 7. október að raforkuframleiðsla fyrir stóriðju hafi verið „stórlega niðurgreidd.“ Samorka óskar eftir að ráðherrann færi rök fyrir þessari staðhæfingu sinni, eða dragi hana ella til baka. Um 80% raforkunnar í landinu fara nú til stóriðju en um 20% á almennan markað. Að jafnaði hefur raforkuverð á almennum markaði hérlendis farið lækkandi svo árum skiptir, að teknu tilliti til vísitölu neysluverðs, og er nú með því allra lægsta sem þekkist á Vesturlöndum. Á sama tíma hefur raforkuframleiðsla til stóriðju aukist hér stórlega. Varla getur ráðherrann lesið úr þessu að almenni markaðurinn, með sín 20 prósent á svo lágu verði, sé að niðurgreiða hin 80 prósentin sem fara til stóriðju? En hver er þá að niðurgreiða þessa raforku, að mati ráðherrans? Lægra almennt orkuverð vegna stóriðjunnarÁ dögunum kom fram í skýrslu AtvinnuLífsinsSkóla að dæmigerð raforkunotkun heimila hefði lækkað um 30% í verði frá árinu 1997, á föstu verðlagi, að stórum hluta vegna aukinnar raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Þá mat Hagfræðistofnun Háskóla Íslands það nýlega svo að stóriðjan hér á landi væri að borga í meðallagi hátt verð, á heimsvísu, fyrir raforkuna. Hvað á ráðherrann við þegar hann fullyrðir að hér sé verið að niðurgreiða orkuna til stóriðju?